Fótbolti

Rifti besta samningnum eftir þrjá mánuði: „Peningar skipta ekki öllu máli“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Emil Hallfreðsson á að baki einstaklega farsælan feril sem atvinnumaður í knattspyrnu
Emil Hallfreðsson á að baki einstaklega farsælan feril sem atvinnumaður í knattspyrnu vísir/arnar

Emil Hallfreðsson, sem tilkynnti að hann væri hættur í fótbolta í gær, segist vera mjög ánægður með atvinnumannaferilinn. Honum leið best í hjá Verona en sleit samningi sínum við annað ítalskt lið eftir aðeins þrjá mánuði.

Emil hefur verið atvinnumaður í knattspyrnu frá árinu 2005 en eins og fram kom í kvöldfréttunum í gær ætlar hann sér núna að gerast umboðsmaður. Hann lék alls með tólf félögum á sínum atvinnumannaferli, nú síðast með Virtus Verona í tvö tímabil í seríu C deildinni.

Leið ekki vel alls staðar

„Ég er nokkuð sáttur með ferilinn. Auðvitað hugsar maður alltaf að einhvers staðar hefði maður vilja gera betur en það bara keppnismaðurinn í manni. Þetta varð miklu meira ævintýri fyrir mig en mig grunaði þegar ég var sextán ára Emil í Hafnarfirði að dreyma um að verða atvinnumaður,“ segir Emil sem leið best hjá Hellas Verona þar sem hann var í sex tímabil og einnig hjá ítalska liðinu Udinese. En honum leið ekki vel alls staðar.

„Ég skrifaði undir hjá Frosinone strax eftir HM og skrifaði þar undir minn besta samning en eftir þrjá mánuði var ég búinn að slíta þeim samningi þar sem við náðum ekki saman. Mér leið ekki nægilega vel þar og þá var ég ekki lengi að slíta því samstarfi. Maður tekur lífsgæði fram yfir einhvern fótboltasamning. Peningar skipta ekki öllu máli og eiga ekki að gera það. Auðvitað skipta þeir máli upp á að búa þér til ákveðið öryggi og allt það, en það er ekki það eina sem skiptir máli, það er alveg á hreinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×