Erlent

Segir Svíþjóð forgangsskotmark íslamista

Kjartan Kjartansson skrifar
Charlotte von Essen, yfirmaður sænsku öryggislögreglunnar SÄPO, kynnti hækkað viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógnar í dag.
Charlotte von Essen, yfirmaður sænsku öryggislögreglunnar SÄPO, kynnti hækkað viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógnar í dag. AP/Henrik Montgomery/TT News Agency

Yfirmaður sænsku öryggislögreglunnar segir að Svíþjóð sé forgangsskotmark íslamskra öfgamanna. Viðbúnaðarstig vegna hryðjuverka var hækkað upp á næsthæsta stig í dag í kjölfar umdeildra Kóranbrenna í landinu.

Öryggisástandið í Svíþjóð hefur farið versnandi og hættan á hryðjuverkum er nú talin há í fyrsta skipti frá árinu 2016. Charlotte von Essen, yfirmaður öryggislögreglunnar SÄPO, sagði að hættan sem stafaði af ofbeldishneigðum íslamistum ætti eftir að vara lengi á blaðamannafundi í dag.

Von Essen hvatti landa sína til þess að lifa áfram eðlilegu lífi. Ekkert eitt atvik hefði verið ástæða þess að ákveðið var að hækka viðbúnaðarstigið.

Samkomur þar sem kveikt er í Kóraninum, helgiriti múslima, hafa vakið mikla reiði í mörgum löndum þar sem múslimar eru í meirihluta. Danskur hægriöfgamaður stóð fyrir slíkri brennu fyrir utan tyrkneska sendiráðið í Stokkhólmi fyrr á þessu ári. Írakskur hælisleitandi hefur einnig kveikt nokkrum sinnum í eintökum af ritinu síðan.

Danska lögreglan jók viðbúnað á landamærum landsins í gær að ráði leyniþjónustunnar PET. Danska leyniþjónustan segir að Kóranbrennurnar hafi leitt til umtalsverðrar neikvæðrar athygli herskárra íslamista. Viðbúnaðar vegna hryðjuverka í Danmörku er einnig á næsthæsta stigi.


Tengdar fréttir

Hækka viðbúnað vegna hryðjuverka í Svíþjóð

Sænska öryggislögreglan SÄPO ætlar að hækka viðbúnað vegna hryðjuverkaógnar upp á næsthæsta stig í dag. SAPO boðar til blaðamannafundar síðar í dag til þess að ræða versnandi stöðu öryggismála í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×