Sport

NFL stjarna fannst á ráfi í miðri umferð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jimmy Graham er kominn aftur til félagsins sem valdi hann í nýliðavalinu fyrir þrettán árum síðan.
 Jimmy Graham er kominn aftur til félagsins sem valdi hann í nýliðavalinu fyrir þrettán árum síðan. Getty/Jonathan Daniel

NFL innherjinn Jimmy Graham átti afar furðulega helgi en hann var handtekinn á föstudagskvöldið.

Hinn 36 ára gamli Graham er leikmaður New Orleans Saints en hann hefur spilað í NFL-deildinni frá árinu 2010 og var lengi í hópi bestu innherja deildarinnar.

Graham er nú kominn aftur til félagsins sem valdi hann í deildina og þar sem hann átti frábær ár í byrjun ferilsins.

Lögreglan hafi afskipti af kappanum þegar hann fannst ráfandi í miðri umferð um kvöldmatarleytið á föstudaginn. Lögreglan handtók hann og grunaði að hann væri undir áhrifum lyfja.

Graham var áttavilltur en um leið ósáttur með handtökuna en læknar New Orleans Saints telja að hann hafi þarna fengið flogakast sem orsakaði það að hann ruglaðist algjörlega í ríminu.

Fyrr um daginn hafði Graham tekið fullan þátt í æfingu og talað við fjölmiðla eftir hana. Þá var allt í fína með hann.

Seinna um kvöldið fannst hann aftur á móti út úr heiminum á Newport Beach í Kaliforníu og lögreglan handtók hann grunaðan um að vera undir áhrifum eiturlyfja.

Graham fór fyrst á lögreglustöðina en var síðan fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar og rannsókna. Hann var útskrifaður í gær og var kominn til móts við liðið fyrir leik á móti Los Angeles Chargers í gær.

Graham spilaði ekki leikinn en það er í lagi með hann. Dennis Allen, þjálfari hans, sagði að hann væri í smá áfalli eftir atvikið en að öðru leyti væri allt í lagi með hann.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×