Áður en líkin fundust hafði einn til viðbótar fundist látinn skammt frá. Talið er að um flóttafólk sé að ræða, þar sem engar tilkynningar höfðu borist um að íbúa á svæðinu væri saknað.
Umrætt svæði, í norðausturhluta Grikklands, hefur orðið illa úti í gróðureldum síðustu daga. Mikill hiti og óhagstæður vindur hafa lagt sitt af mörkum. Eldarnir hafa breiðst hratt út í Dadia-þjóðgarðinum norður af Alexandroupolis og fólk verið hvatt til að halda sig frá svæðinu.
Samkvæmt óstaðfestum fregnum fundust hinir látnu í tveimur hópum og óttast er að fleiri lík muni finnast. Leit stendur enn yfir á svæðinu og unnið er að rannsókn málsins.
Yfirvöld ítreka að viðvörunarskilaboð hafi verið send í alla farsíma á svæðinu, bæði innlenda og erlenda. Samkvæmt stuðningssamtökunum Alarm Phone hefur þurft að bjarga nokkrum fjölda flóttamanna frá eldunum.
Talið er að um 380 ekrur hafi orðið eldunum að bráð í Evros-héraði en eldar loga víðar í landinu og tugþúsundir hafa meðal annars verið hvattir til að yfirgefa úthverfið Ano Liosia, norðvestur af Aþenu.