Fótbolti

Hákon byrjaði í sigri Lille | Allt galopið hjá Klaksvík

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson í leik með Lille
Hákon Arnar Haraldsson í leik með Lille Vísir/Getty

Hákon Arnar Haraldsson var í byrjunarliði Lille sem vann 2-1 heimasigur á HNK Rijeka í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld. 

Hákon Arnar gekk til liðs við Lille í sumar frá FC Kaupmannahöfn og byrjaði vel með liðinu í æfingaleikjum. Liðið mætti í kvöld HNK Rijeka frá Króatíu í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Marco Pasalic kom gestunum yfir á 24. mínútu en Edon Zhegrova jafnaði fyrir Lille skömmu fyrir hálfleik.

Á 89. mínútu skoraði svo Leny Yoro sigurmark Lille með skalla en Hákon Arnar hafði þá verið tekinn af velli tuttugu mínútum fyrr. Lokatölur 2-1 og Lille því með nauma forystu fyrir síðari leikinn í Króatíu.

Færeysku meistararnir í Klaksvik hafa komið gríðarlega á óvart í Evrópukeppni hingað til en liðið er nú þegar búið að tryggja sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Í kvöld lék liðið gegn Sheriff Tiraspol á heimavelli sínum í umspili um sæti í Evrópudeildinni.

Patrick Da Silva kom Klaksvík yfir í upphafi síðari hálfleiks en Jerome Mbekeli jafnaði fyrir gestina á 73. mínútu og þar við sat. Einvígið galopið fyrir síðari leikinn eftir viku.

Kristian Nökkvi Hlynsson var á varamannabekk Ajax sem svo gott sem tryggði sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar með 4-1 útisigri á Ludogorets. Mohammed Kudus skoraði þrennu í það sem gæti verið hans síðasti leikur fyrir Ajax en hann er nálægt því að semja við West Ham á Englandi.

Þá var Sverrir Ingi Ingason frá vegna meiðsla þegar Midtjylland gerði 3-3 jafntefli gegn Legia frá Varsjá í Danmörku í kvöld. Sverrir Ingi gekk nýlega til liðs við Midtjylland en hefur lítið getað spilað vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×