„Núna er verið að gera sameindaerfðafræðileg próf,“ sagði rannsakandi á vettvangi en þau eru framkvæmd til að bera kennsl á líkin.

Ýmsar getgátur eru uppi um hvernig flugvélin fórst og hafa Rússar verið sakaðir um að hafa skotið flugvélina niður í hefndaraðgerð gegn Prígosjín. Dmítrí Peskov, talsmaður Pútíns, þverneitaði þeim ásökunum, á blaðamannafundi í dag.
„Núna eru auðvitað ýmsar vangaveltur um flugslysið og hörmulegan dauða farþega flugvélarinnar, þar á meðal Jevgenís Prígósjíns,“ sagði Peskov á blaðamannafundinum. „Í Vestrinu eru þær vangaveltur auðvitað settar fram frá ákveðnu sjónarhorni en það er allt haugalygi.“
„Við höfum ekki mikið af staðreyndum á þessu stigi málsins. Staðreyndirnar þarf að skýra í opinberri rannsókn sem er nú verið að framkvæma,“ sagði hann einnig.
Prígósjín og hægri hönd hans, Dmítrí Útkin, voru á farþegalista flugvélarinnar auk fimm Wagner-manna og þriggja áhafnarmeðlima. Peskov vildi hins vegar ekki svara því hvort búið væri að staðfesta að Prígosjín hefði verið um borð í flugvélinni.