Fjölskylda Sigríðar greinir frá andláti hennar. Sigríður lést á krabbameinsdeild Landspítalans í morgun.
Sigríður fæddist 31. október 1949. Hún lauk BA-prófi í tónlist og fornmálum við Lindenwood háskólann í Missouri í Bandaríkjunum vorið 1971. Á árunum 1976-1978 dvaldi hún í München í Þýskalandi þar sem hún sótti tíma í tónvísindum og fornmálum við Ludwig-Maximilian háskólann. Hún lærði menningarstjórnun við Viðskiptaháskólann á Bifröst og lauk námi í svæðisleiðsögn um Vestfirði árið 2018.
Hún tók virkan þátt í tónlistarstarfi á Vestfjörðum, starfaði sem píanókennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar og var ráðin skólastjóri skólans árið 1984. Hún gegndi því starfi til ársins 2017.
Þá starfaði hún sem undirleikari fyrir kóra, einsöngvara og hljóðfæraleikara á Vestfjörðum auk þess sem hún starfaði sem organisti bæði Ísafjarðarkirkju og Súðavíkurkirkju.
Sigríður var einn af stofnendum Kvennaframboðsins og Kvennalistans. Hún var margsinnis í framboði fyrir Kvennalistann á Vestfjörðum, bæði í lands- og sveitarstjórnarkosningum. Síðar gekk hún til liðs við Samfylkinguna og sat um tíma sem varaþingmaður í Vestfjarðakjördæmi.
Sumarið 2008 var Sigríður sæmd riddarakrossi hinnar Íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að tónlistarmenntun. Sama ár var hún útnefnd bæjarlistamaður Ísafjarðar.
Vorið 2022 hlaut hún viðurkenningu fyrir brautryðjendastörf í menningarmálum Ísafjarðar og glæsilega skólastjóratíð.
Eftirlifandi eiginmaður Sigríðar er Jónas Tómasson tónskáld. Sigríður lætur eftir sig þrjú uppkomin börn.