Hér erum við að tala um Elínborgu Pálsdóttur, fimm barna móðir en maður hennar var Benedikt Þorsteinsson, sem lést í október 2001. Þau bjuggu í Suðursveit. Elínborg býr á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði á Höfn þar sem fer vel um hana.
Bæjarstjóri Hornafjarðar, Sigurjón Andrésson færði afmælisbarninu blómvönd í tilefni dagsins en Elínborg er elsti núlifandi íbúi sveitarfélagsins.
„Það er gott að vera hérna, þetta er góð elli, maður fær alla hjálp, sem maður þarf, það er stjanað við mann,” segir Elínborg.
Og þú ert orðin 100 ára, hvernig líst þér á það?
„Það er bara ágætt á meðan ég held heilsunni og er ekki niðurbeygð eins og gamalt fólk verður oft,” segir hún.
Elínborg fer út að ganga á hverjum degi með göngugrindina sína og er almennt mjög heilsuhraust.
„Ég hef hreyft mig mikið, ég hef gengið mikið og borðað hollan mat náttúrulega og ekki verið óreglu manneskja og ekki reykt, það er bölvað eitur að reykja,” segir Elínborg.

Elínborg er gamansöm og svaraði svona þegar hún var spurð hvað hún ætlaði að gera í tilefni dagsins?
„Ég ætla að drekka mig fulla, það eru að verða síðustu forvöð til þess,“ segir hún og hlær.

En hvað ætlar hún að verða gömul?
„Þetta er skrítin spurning. Það er svo gott að vera hérna, ég gæti orðið 110 að minnsta kosti. Ég veit ekki hvort að nokkur hafi orðið það hérna, ég hugsa ekki.”
