34 laxar voru sendir til greiningar en sjö sem veiddust í Mjólká í Arnarfirði reyndust villtir. 26 eldislaxa var hægt að rekja til eldissvæðis Arctic Sea Farm við Kvígindisdal í Patreksfirði. Ekki tókst að rekja uppruna staks eldislax sem einnig veiddist í Mjólká en ljóst er að restin hafi komið úr sjókvíum Arctic Sea.
Eldislaxinn veiddist í Patreksfirði, Örlygshöfn, Sunnudalsá, Mjólká, Laugardalsá, Ísafjarðará, Selá í Ísafjarðardjúpi, Miðfjarðará, Hópinu, Víðidalsá, Vatnsdalsá, Laxá í Dölum og Staðarhólsá/Hvolsá.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.
Greint var frá því hinn 20. ágúst síðastliðinn að tvö göt hafi fundist á sjókví Arctic Sea Farm en Matvælastofnun taldi að sennilega væri ekki um stór göt að ræða. Í kjölfarið fyrirskipaði stofnunin að slátra skyldi öllum löxum í kvínni, sem voru rúmlega 83 þúsund.
Laxveiðimenn eru uggandi yfir stöðunni og greindi veiðimaðurinn Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson frá því fyrr í vikunni að ástandið væri miklu verra en hann og kollegar hans hefðu getað ímyndað sér.