Djokovic lagði Daniil Medvedev í úrslitum Opna bandaríska meistaramótsins í tennis á sunnudag. Þar með jafnaði hann met Margaret Court sem vann á sínum tíma 24 risatitla í íþróttinni. Djokovic er nú tveimur risatitlum á undan Rafael Nadal sem hefur unnið 22 á felri sínum og fjórum á undan Roger Federer sem lagði spaðann á hilluna í fyrra.
Hinn 36 ára gamli Djokovic fór nokkuð lét með Medvedev í úrslitum en Serbinn vann í þremur settum; 6-3, 7-6 (7-5) og 6-3. Þetta var þriðji sigur Djokovic á árinu en hann hafði þegar unnið Opna ástralska og Opna franska. Þá komst hann alla leið í úrslit á Wimbledon en tapaði þar fyrri Carlos Alcaraz.
Djokovic, sem trónir á toppi heimslistans, heiðraði Kobe Bryant heitinn eftir sigurinn. Kobe lék lengi vel í treyju númer 24 og vitnaði Djokovic í töluna sem og vináttu þeirra í sigurræðu sinni.
„Ég veit ekki hvar ég á að byrja. Þetta skiptir mig augljóslega öllu máli. Ég er að upplifa bernskudrauminn, að keppa á hæsta getustigi íþróttarinnar sem hefur gefið mér og fjölskyldu minni svo mikið.“
„Mér datt aldrei í hug að ég myndi standa hér og tala um 24 sigra á risamótum. En á undanförnum tveimur árum hefur mér liðið eins og það sé tækifæri á að skrá sig á spjöld sögunnar, svo af hverju ekki að grípa það?“
„Kobe var góður vinur, við töluðum mikið um hugarfar. Þegar ég var að glíma við meiðsli var hann sá sem ég talaði hvað mest við. Hann var alltaf tilbúinn að gefa manni ráð. Ég hugsaði með mér að hann var númer 24 þegar hann var goðsögn hjá Los Angeles Lakers og um allan heim,“ sagði sigurvegarinn Djokovic að lokum.