Erlent

Sprenging í í­búðar­hús­næði við Stokk­hólm

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Lögreglumaður á vettvangi.
Lögreglumaður á vettvangi.

Sprenging varð í í­búðar­hús­næði í Bro, bæ í út­jaðri Stokk­hóms í Sví­þjóð í nótt. Engan sakaði vegna sprengingarinnar.

Í um­fjöllun sænska ríkis­út­varpsins um málið kemur fram að í­búar hafi látið lög­reglu vita af sprengingunni rétt fyrir mið­nætti. Miklar skemmdir urðu á hurð hússins og gluggum.

Segist sænska ríkis­út­varpið hafa heimildir fyrir því að íbúi í húsinu tengist skipu­lagðri glæpa­starf­semi, nánar til­tekið F­oxtrot sam­tökunum og leið­toga þeirra, Rawa Majid sem sænskir fjöl­miðlar kalla „kúrdíska refinn.“

Sam­tökin eru talin bera á­byrgð á röð skot­á­rása í Upp­sölum og í Stokk­hólmi. Lög­regla verst hins­vegar allra frétta að sögn sænska ríkis­út­varpsins en telur ekki að um slys hafi verið að ræða.

Hefur sænska ríkis­út­varpið eftir Mats Eriks­son, tals­manni lög­reglunnar, að þó nokkrir ein­staklingar hafi verið færðir til yfir­heyrslu vegna sprengingarinnar. Hann gefur hins vegar ekkert upp um meint tengsl íbúa í húsinu við glæpa­hópa. Lög­regla muni nýta daginn í að ræða við vitni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×