Erlent

Fækka erindrekum á Indlandi vegna deilna um dráp á leiðtoga sjíka

Atli Ísleifsson skrifar
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði á mánudaginn að rannsókn leyniþjónustunnar hafi bent til að útsendarar ríkisstjórnar Indlands hafi átt þátt í drápinu á Hardeep Singh Nijjar í júní síðastliðnum.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði á mánudaginn að rannsókn leyniþjónustunnar hafi bent til að útsendarar ríkisstjórnar Indlands hafi átt þátt í drápinu á Hardeep Singh Nijjar í júní síðastliðnum. AP

Kanadísk stjórnvöld hafa ákveðið að fækka í liði erindreka sinna á Indlandi vegna deilna um dráp á leiðtoga síkha í Kanada í júní síðastliðnum. Áður höfðu indversk stjórnvöld tilkynnt að ákveðið hafi verið að stöðva útgáfu vegabréfsáritana til kanadískra ríkisborgara.

Deiluna má rekja til þess að kanadísk yfirvöld sögðust fyrr í vikunni rannsaka „trúverðugar ásakanir“ um að indversk stjórnvöld hafi átt þátt í dauða sjíkaleiðtogans Hardeep Singh Nijjar. Hann var kanadískur ríkisborgari og leiðtogi sjíka í Bresku-Kólumbíu í Kanada.

BBC greinir frá því að indversk stjórnvöld hafi hafnað ásökunum Kanadamanna um að hafa borið ábyrgð á drápinu á Singh Nijjar og sagt þær vera „fráleitar“.

Indversk stjórnvöld sendu fyrr í vikunni út boð þar sem indverskir ríkisborgarar í Kanada eru hvattir til að fara öllu með gát vegna hatursglæpa og annarra glæpa sem beinast gegn Indverjum og rekja mætti til embættisfærslna kanadískra stjórnmálamanna. Er fullyrt að indverskir diplómatar í Kanada hafi sætt hótunum.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði á mánudaginn að rannsókn kanadísku leyniþjónustunnar hafi bent til að útsendarar ríkisstjórnar Indlands hafi átt þátt í drápinu á Hardeep Singh Nijjar. Hann var ráðinn af dögum af tveimur grímuklæddum mönnum fyrir utan síkhahof í Bresku-Kólumbíu þann 18. júní síðastliðinn. Indversk stjórnvöld höfðu sett Singh Nijjar á lista yfir hryðjuverkamenn árið 2020.

Indversk stjórnvöld hafa oft gripið til aðgerða gegn aðskilnaðarsinnum Síkha sem berjast fyrir sjálfstæðu ríki í Punjab-héraði. Fjölmennasta hóp sjíka utan Punjab er að finna í Kanada.


Tengdar fréttir

Kanadamenn gruna indversk stjórnvöld um græsku

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir trúverðugar heimildir benda til tengsla milli stjórnvalda í Indlandi og morðs á kanadískum ríkisborgara. Indverskum diplómata í Kanada hefur verið vísað frá landi vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×