Körfubolti

Sjáðu frá­bæra flautu­körfu Keiru sem tryggði bikarinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Keira Robinson skoraði magnaða sigurkörfu.
Keira Robinson skoraði magnaða sigurkörfu. Vísir/Diego

Valur tók á móti Haukum í Meistarakeppni KKÍ á Hlíðarenda í gærkvöld. Leikurinn var hin besta skemmtun en sigurkarfan kom þegar lokaflautið gall. Sigurkörfuna má sjá hér að neðan.

Í umfjöllun Vísis um leikinn segir: 

Gestirnir voru með leikinn í hendi sér þegar um tvær mínútur voru eftir en heimakonur náðu að snúa taflinu sér í vil og Hildur Björg Kjartansdóttir kom Valskonum yfir þegar tvær sekúndur voru eftir af leiknum.

Haukar tóku leikhlé, Keira fékk boltann eftir innkast, sótti inn fyrir þriggja stiga línuna, sleppti boltanum í átt að körfunni og skotið rataði rétta leið.

Dómararnir, sem voru mættir aftur leiks eftir verkfall, skoðuðu hvort að tíminn hefði verið runninn út og gáfu eftir skoðun merki um að karfan væri góð og gild. Fyrsti titilinn á tímabilinu fer í Hafnarfjörðinn, til bikarmeistaranna frá því á síðasta tímabili.

Keira Robinson var best þegar á reyndi. Hún skoraði nítján stig, gaf sex stoðsendingar og tók fimm fráköst. Hér að neðan má sjá magnaða sigurkörfu hennar sem tryggði Haukum fyrsta titil tímabilsins.

Klippa: Ótrúleg flautukarfa Hauka tryggði titilinn

Haukum var spáð 4. sæti Subway deildarinnar í árlegri spá forráðamanna liðanna sem var kynnt í dag. Val var spáð 3. sætinu.

Keppni í Subway deildinni hefst í næstu umferð. Bæði lið eiga leik á þriðjudaginn. Valur sækir Breiðablik heim á meðan Haukar fá Snæfell í heimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×