Atvinnulíf

Forstjórinn sem endar stundum ein á dansgólfinu

Rakel Sveinsdóttir skrifar
B týpan Brynja Baldursdóttir, forstjóri Greiðslumiðlunar Íslands, viðurkennir að hún sefur eins lengi á morgnana og hún kemst upp með.
B týpan Brynja Baldursdóttir, forstjóri Greiðslumiðlunar Íslands, viðurkennir að hún sefur eins lengi á morgnana og hún kemst upp með. Vísir/Vilhelm

B týpan Brynja Baldursdóttir, forstjóri Greiðslumiðlunar Íslands, segir umferðateppuna úr Garðabæ alveg gefa frábærar gæðastundir á morgnana og þegar hún er spurð um tónlist og dans, segir hún það oftast frekar auðvelt að ná sér út á gólfið í sveiflu.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Ég vakna yfirleitt um sjö þrjátíu, sem er um það bil eins seint og ég kemst upp með. Ég hef alltaf verið B týpa og það hefur lítið breyst með aldrinum. En síðdegin eru þeim mun skilvirkari hjá mér. 

Ég vildi geta sagt að ég fari í ræktina eða hugleiði á morgnana en allar tilraunir til þess hafa fallið um sig sjálfar eftir eitt til tvö skipti. Nú síðast í vor þegar ég bókaði mig hjá einkaþjálfara hálf átta einu sinni í viku. Maðurinn minn benti mér þá kurteislega á að ég ætti nú að vera farin að þekkja sjálfa mig betur, sem reyndist alveg rétt ábending.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Það fyrsta sem ég geri er að blanda grænan vítamíndrykk fyrir okkur hjónin og strax þar á eftir geri ég góðan kaffibolla sem ég er stundum farin að geta drukkið í ró og næði eftir að börnin urðu sjálfbjarga á morgnana.

Annars er bara að koma öllum af stað út í daginn og alveg ný morgunstund er að skutla syni mínum í Versló á leið minni í vinnuna. Umferðarteppan úr Garðabæ er að gefa alveg frábærar gæðastundir með honum á morgnana.“

Hvaða lag frá unglingsárunum fær þig alltaf út á dansgólfið?

„Mér hefur alltaf þótt gaman að dansa svo það hefur nú ekki þurft mikið til og mörg lög sem koma mér á dansgólfið. Unfinished Sympathy með Massive attack og eiginlega allt með Snap og KLF virkar vel.

Við æskuvinkonurnar þróuðum mjög töff dansspor með þessum lögum á sínum tíma sem eru alltaf tekin ef við erum saman. 

Ice Ice Baby með Vanilla Ice kemur mér líka alltaf í stuð en hefur af einhverjum undarlegum ástæðum ekki elst vel fyrir neinn nema mig svo ég er þá ein á dansgólfinu ef það er sett á.“

Brynju finnst haustin svo skemmtilegur tími því þá er atvinnulífið að keyrast aftur í gang og allir að koma vel undan sumri. Brynja elskar gott skipulag og segist hafa prófað ýmiss öpp en endar alltaf á því að styðjast við gamla góða Outlook-ið.Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Við erum í stóru umbreytingarverkefni hjá Greiðslumiðlun Íslands en stærsta fyrirtækið í samstæðunni er Motus. Við höfum verið að byggja upp sterka innviði, bæði kerfi og öflugt starfsfólk, og erum mjög spennt að koma út með ýmsar nýjungar í kröfuþjónustu á næstu mánuðum. 

Þetta er sögulega frekar gamaldags bransi sem við erum að fara að umbylta og það er alltaf gaman að geta betrumbætt hlutina svo um munar.

Akkúrat núna erum við svo í okkar árlegu uppfærslu á stefnunni okkar, helstu markmiðum og verkefnunum framundan. Það er alltaf skemmtilegur tími á haustin þegar allt er að keyrast í gang og fólk kemur ferskt undan sumri.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

Outlook stjórnar lífi mínu bæði í vinnu og einkalífinu. Mottóið er að ef það er ekki í Outlook þá er það ekki að fara að gerast. 

Ég elska gott skipulag og hef prófað alls konar forrit og öpp til að skipuleggja mig en á endanum er það bara gamla góða Outlook og tölvupósturinn sem virkar best fyrir mig.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Ég er oft komin í rúmið milli tíu og ellefu og sofna frekar fljótt eftir það. Þó að ég sé B týpa að upplagi þá hef ég orðið kvöldsvæfari með árunum og er reyndar mögulega örlítið ferskari á morgnana fyrir vikið.“


Tengdar fréttir

Forstjórinn byrjar daginn á að leggjast aftur upp í rúm og á gaddadýnu

Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs, segist vel gaddaður þegar hann fer fram úr og nýtur gæðastundar með eiginkonunni. Þá búinn að liggja á Shakti-gaddadýnu og hlusta á jóga-nidra hugleiðslu. EOS aðferðarfræðin í vinnunni er hans helsta skipulagstól.

Er skrambi góð á grillinu og segir humarpítsuna vera besta

Berglind Ólafsdóttir fjármálastjóri Hörpu er B týpan og á það því til að fara að búa til pestó, múslí eða sultu á kvöldin og enda þá með að fara of seint að sofa. Berglind segist skrambi góð á grillinu á sumrin og þar er það humarpítsa sem varð óvart til í Stykkishólmi um árið, sem er best.

Á það til að „Asana“ yfir sig og til í minni rigningu en meiri sól

Sigurður Svansson framkvæmdastjóri Sahara og einn stofnenda og eigenda, býr í Orlando með fjölskyldunni sinni og nýtir tímamismuninn klukkan fimm á morgnana fyrir símtöl til Íslands. Hann segir náttúrufegurðina á Íslandi magnaða en væri til í meiri sól og minni rigningu. Í Orlando er golfið áhugamál númer eitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×