Innlent

Þrír Danir á­kærðir í skútu­máli

Bjarki Sigurðsson skrifar
Mennirnir voru handteknir í lok júní á þessu ári. 
Mennirnir voru handteknir í lok júní á þessu ári.  Vísir/Vilhelm

Þrír danskir ríkisborgarar hafa verið ákærðir af héraðssaksóknara fyrir stórfelld fíkniefnabrot. Eru þeir sagðir hafa reynt að smygla tæplega 160 kílóum af hassi til Grænlands. Munu þeir hafa siglt með fíkniefnin að Íslandsströndum á leið sinni. 

Mennirnir þrír voru handteknir í lok júní á þessu ári. Tveir þeirra voru um borð í skútunni úti fyrir Garðskagavita í Suðurnesjabæ. Sá þriðji var handtekinn á landi. 

Þeir tveir sem voru um borð í skútunni eru fæddir árin 1970 og 1989. Eru þeir ákærðir fyrir að hafa haft efnin í vörslum sínum í skútunni og ætlað sér að sigla með þau áfram til Grænlands til sölu- og dreifingar þar. Tekið er fram í ákæru að skútan hafi verið sjósett í Danmörku. 

Þriðji maðurinn er fæddur árið 2002 en hann er sagður hafa komið til Íslands að fyrirmælum óþekktra aðila. Fékk hann frá þeim fjármagn og leiðbeiningar um kaup á búnaði og vistum. Flaug hann hingað til lands og hitti annan mannanna í fjörunni við Garðskagavita. Færði hann honum þar ýmsar vistir, þar á meðal bensín og utanborðsmótor. 

Fjölmargir munir voru gerðir upptækir við rannsókn málsins, flest allt munir sem fundust um borð í skútunni. Má þar nefna slípirokk, juðara, hitablásara, vakúmpökkunarvél, nokkra farsíma og fyrirframgreidd kort.

Er þess krafist að mennirnir verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. 


Tengdar fréttir

Enn eitt skútumálið komið upp hér á landi

Enn eitt skútumálið er komið upp hér á landi eftir að umfangsmiklar aðgerðir lögreglu með aðstoð fjölmargra aðila leiddi til handtöku þriggja karlmanna snemma morguns laugardag vegna smygls á miklu magni fíkniefna. Ráðist var til aðgerða undan vestarlega við suðurströnd Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×