Ísland vann Wales í fyrsta leik liðsins í Þjóðadeildinni á laugardalsvellinum á föstudaginn. Leikurinn fór 1-0 og skoraði Glódís Perla Viggósdóttir eina mark leiksins eftir rúmlega fimmtán mínútna leik.
„Liðið hefur verið að spila þéttan og mjög svo góðan varnarleik en svo eigum við svolítið erfitt að tengja sóknarlega og höfum verið í vandræðum með að komast aftur fyrir andstæðingana og skapa góðu færin sem við viljum fá. Heilt yfir varnarleikurinn mjög góður en það vantar svolítið upp á sóknarleikinn,“ segir Margrét Lára og bætir við að það sé heldur betur mikilvægt fyrir íslenska liðið að vera með leikmann eins og Glódísi Perlu innanborðs og mögulega sé hún að verða einn besti leikmaður heims í sinni stöðu.
Hún segir að mekka kvennaknattspyrnunnar sé í Þýskalandi.
„Maður man eftir því sjálfur þegar maður var að spila að spila á móti þjóð eins og Þýskalandi var bara toppurinn. Þetta verður rosaleg áskorun fyrir liðið en þetta verður líka rosaleg áskorun fyrir Þjóðverjana. Þær hafa verið að hökkta undanfarið.“
Rætt var við Margréti í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi og má sjá viðtalið hér að neðan.