Meðal þeirra kvikmynda sem frumsýndar verða á morgun er heimildarmyndin Dagurinn sem Ísland stöðvaðist, sem fjallar um kvennafrídaginn í október 1975. Að henni lokinni verður heimildarmyndin Tógólísa eftir Öldu Lóu Leifsdóttur, sem fjallar um sumarbúðir í Tógó í anda stelpur rokka, frumsýnd.
Þá verður kvikmyndin Mannverur, í leikstjórn Gústavs Geirs Bollasonar frumsýnd. Myndin er blanda af heimildarmynd, framúrstefnu og og skáldskap og fjallar um yfirgefna byggingu á norðurströnd Íslands.
Auk heimildarmynda verða allnokkrar stuttmyndir sýndar og í kjölfarið verða veitt verðlaun fyrir bestu íslensku stuttmyndina.
Ein þeirra mynda er stuttmyndin Sorgarstig, undir leikstjórn Harðar Freys Brynjólfssonar, en á þriðjudag verða haldnir tónleikar í tengslum við myndina þar sem Skúli Sverrisson, Davíð Þór Jónsson og Þorleifur Gaukur, munnhörpuleikari Kaleo, leika listir sínar.
Aðrar stuttmyndir sem sýndar verða eru til að mynda Moon Pie Vanilla eftir Erlend Sveinsson, Frumeðli eftir leikkonuna Brynju Valdísi Gísladóttur og Strandglöp eftir Odd S. Hilmarsson.
Reykjavík International Film Festival stendur yfir til sunnudagsins 8. október. Dagskrána í heild sinni má nálgast á vefsíðu RIFF.