Viðskipti innlent

Segja heita síma Apple ekki skrifast á nýja hönnun

Samúel Karl Ólason skrifar
Sérstakar útgáfur nýjustu síma Apple, iPhone 15, hafa verið að hitna svo notendur og blaðamenn haf akvartað yfir því.
Sérstakar útgáfur nýjustu síma Apple, iPhone 15, hafa verið að hitna svo notendur og blaðamenn haf akvartað yfir því. AP/Jeff Chiu

Forsvarsmenn Apple segja það ekki nýrri hönnun iPhone 15 að kenna að símarnir eigi það til að hitna, heldur sé að mestu um hugbúnaðargalla að ræða. Til stendur að laga þennan galla í nýrri uppfærslu fyrir iOS 17, stýrikerfi Apple.

Notendur og aðrir hafa á undanförnum dögum kvartað yfir því hve mikið nýjustu símar Apple hitna.

Í minnst einu tilfelli var sími sagður hafa orðið 47 gráðu heitur. Umfang vandans hefur þó verið mjög óljóst, þó tiltölulega margar kvartanir hafi borist.

Mögulegt þykir að hitann megi að hluta til rekja til nýrrar grindar í símum Apple, sem séu úr títaníum. Þær hafa áður verið úr stáli og með því breyta yfir í títaníum hafa símarnir verið gerðir léttari.

Sjá einnig: Kvartað undan of heitum iPhone 15

Í yfirlýsingu til Wall Street Journal (áskriftarvefur) segir talsmaður Apple að þrjár ástæður fyrir því að símar hafi verið að hitna hafi fundist.

Ein sé að nýir símar hitni iðulega við uppsetningu. Það er hefðbundið og vel þekkt, þar sem símar eru að hlaða mikið af gögnum niður og vinna á bakvið tjöldin. Apple segir aðra ástæðu vera utanaðkomandi forrit sem valdi álagi á símum.

Þriðja ástæðan er sögð vera hugbúnaðargalli í stýrikerfi símanna og á það að lagast í næstu uppfærslu. Sú uppfærsla á ekki að koma niður á hraða símanna, eins og talið hefur verið að lausn gæti falið í sér.

Skýrt er tekið fram í yfirlýsingunni að símar séu ekki að hitna út af títaníum grind þeirra. Verkfræðingar Apple segja að títaníum sé betri hitaleiðari en stálið sem notað var í símanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×