Bensínstöðvarnar fjórar sem Borgarsögusafn leggur til að verði settar í sérstakan rauðan verndarflokk eru bensínstöð við Ægisíðu, Laugaveg, Skógarhlíð og Háaleitisbraut. Í öllum tilvikum er vísað til vandaðrar og fágætrar byggingarlistar sem einkennir stöðvarhúsin.
Bensínstöðvarnar eru áratugagamlar og eru allar á lóðum þar sem byggja á íbúðar- og atvinnuhúsnæði, samkvæmt stefnu borgarinnar um að fækka bensínstöðvum. Sérstök óvissa hefur ríkt um Ægisíðustöðina.
„Ég er búin að vera hérna í fimm og hálft ár og það er búið að vera að tala um að það eigi að fara að loka síðan ég byrjaði og víst löngu áður líka, þannig að það er mikil óvissa með þetta,“ segir Steinar Már Gunnsteinsson, stöðvarstjóri á N1 við Ægisíðu.
Þyrfti að skvera stöðina verulega upp
Tillaga Borgarsögusafns felur í sér að stöðvarnar fjórar fái svokallaða hverfisvernd. Þannig verði meðal annars sérstök aðgát höfð við hvers kyns breytingar og mælst til þess að útlit verði fært til upprunalegs horfs. Ljóst er að Ægisíðustöðin má muna sinn fífil fegurri.
„Og ekki bætti úr skák að hérna kom trukkur um daginn, fyrir nokkrum vikum og keyrði niður skyggnið hjá okkur og það er nú verið að laga það núna. Það þyrfti þá að skvera hana til ef hún á að vera hérna lengur. En það er alveg ljóst að fólk vill hafa þessa stöð hérna,“ segir Steinar.
En aftur að heildarmyndinni. Bensínstöðin við Laugaveg nýtur auk þess þeirrar sérstöðu að vera elsta bensínstöð sem enn stendur í borginni, hún var byggð árið 1946 - og er jafnframt sögusvið hinna ódauðlegu sjónvarpsþátta Næturvaktarinnar, sem hlýtur að auka enn á varðveislugildi stöðvarinnar.
Verndun Ægisíðu og Háaleitisbrautar nýjar forsendur
Framtíðaruppbygging þarna við Laugaveg og í Skógarhlíð hefur hingað til tekið mið af verndun, að sögn Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa og formanns umhverfis- og skipulagsráðs. En verndun Ægisíðu og Háaleitisbrautar væru glænýjar forsendur.
„Það eru ekki konkret tillögur á borðinu sem þarf að breyta sérstaklega eins og staðan er núna en við vitum að það myndi takmarka uppbygingu á þessum lóðum. Myndi í rauninni þá gera það að verkum að það væri kannski ekki hægt að halda í þá uppbyggingu sem lagt var upp með,“ segir Dóra Björt.
Hún leggur þó áherslu á að enn sé ótímabært að segja nokkuð til um framtíð lóðanna með vissu. Þá á skýrsla Borgarsögusafns eftir að fara í gegnum ýmiss konar stjórnsýslu og talsverður tími í að endanleg niðurstaða fáist í málið.