Enski boltinn

Rauða spjaldið á Jota var líka rangur dómur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool maðurinn Diogo Jota fær hér rauða spjaldið frá Simon Hooper dómara.
Liverpool maðurinn Diogo Jota fær hér rauða spjaldið frá Simon Hooper dómara. Getty/Visionhaus

Sjálfstæð nefnd á vegum ensku úrvalsdeildarinnar hefur skoðað umdeild atvik frá leikjum síðustu helgar og það var ekki bara rangstöðumarkið hans Luis Diaz sem var rangur dómur í leik Liverpool og Tottenham.

Liverpool tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu eftir að hafa endað níu á móti ellefu en Tottenham tryggði sér 2-1 sigur á sjálfsmarki á síðustu sekúndu leiksins.

Liverpool komst í 1-0 í leiknum en markið var dæmt af vegna rangstöðu eins og þekkt er en myndbandadómarar leiksins gerðu þar stór mistök. Misskilningur varð á milli þeirra og dómara. Þeir áttuðu sig ekki á því fyrr en leikurinn var farinn af stað á ný.

Independent Key Match Incidents Panel hefur nú farið yfir atvik leiksins og komst að því að dómararnir gerðu fleiri stór mistök í þessum, leik. Diogo Jota átti þannig aldrei að fá rautt spjald.

ESPN komst yfir niðurstöður nefndarinnar og þar kemur fram að Jota hafi aldrei átt að fá gula spjaldið fyrir seinna brotið en hann fékk tvö gul spjöld með stuttu millibili. Meirihluti nefndarinnar taldi það vera rangan dóm.

Nefndin var aftur á móti sammála því að reka Curtis Jones af velli með rautt spjald á 24. mínútu. Jones fékk fyrst gult spjald en myndbandadómararnir gerði athugasemd við það og hann fékk í framhaldinu rautt spjald.

Fimm manns eru í nefndinni, þrír fyrrum leikmenn eða þjálfarar auk eins fulltrúa frá bæði ensku úrvalsdeildinni og dómarasamtökunum.

Þetta var annars slæm helgi fyrir dómarana því nefndin komst að því að í fjórum öðrum tilfellum hafi myndbandadómarar gert mistök með því að grípa ekki inn í.

Nefndin komst að því að annað og þriðja mark Aston Villa í 6-1 sigri á Brighton & Hove Albion hafi ekki átt að standa. Fyrsta markið vegna rangstöðu og hitt markið vegna brots í aðdraganda þess.

Það var einnig niðurstaða nefndarinnar að Aston Villa maðurinn Ezri Konsa hafi átti að fá sitt annað gula spjald á 71. mínútu í stöðunni 4-1.

Að lokum taldi nefndin að Brentford hafi átti að fá vítaspyrnu í 1-1 jafntefli við Nottingham Forest þegar markvörðurinn Matt Turner braut á Yoane Wissa, framherja Brentford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×