Erlent

„Við erum í stríði“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Ófremdarástand ríkir nú í Ísrael, enda segir forsætisráðherran landið eiga í stríði.
Ófremdarástand ríkir nú í Ísrael, enda segir forsætisráðherran landið eiga í stríði. EPA

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefur lýst yfir stríði í kjölfar eldflaugaárása Hamas-samtakanna gegn Ísrael.

„Við erum í stríði,“ segir Netanyahu í yfirlýsingu á samfélagsmiðlinum X. „Þetta er ekki hernaðaraðgerð, eða bardagi, heldur stríð.“

Hann segist hafa gefið fyrirskipanir til aðila sem fara með varnarmál í landinu um að ráðast gegn þeim sem bera ábyrgð á eldflaugaárásum næturinnar.

Netanyahu segir að viðbrögð Ísraelsríkis verði hörð. „Óvinurinn mun fá þetta borgað á hátt sem hann hefur aldrei fengið að smakka á nokkru sinni fyrr.“

Þá hvetur hann íbúa Ísraels til að hlýða tilskipunum hersins og stjórnvalda. „Við erum í stríði og við munum bera sigur úr býtum,“ segir hann í lok yfirlýsingar sinnar.

Snemma í morgun rigndi eldflaugum yfir Ísrael, sem einn leiðtogi samtakanna segir að hafi verið fimm þúsund talsins. Í kjölfarið er talið að Hamas-liðar á landi hafi farið í frekari hernaðaraðgerðir í suðurhluta Ísrael.

Í ísraelskum miðlum er greint frá því að byssubardagar séu nú í gangi víðs vegar um landið. Þá segir BBC að tala látina sé komin upp í 22.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Leiðtogi innan Hamas-samtakanna segir að fimm þúsund eldflaugar hafi verið sendar í morgun.EPA
Samkvæmt EPA-myndabankanum sjást Palestíumenn fagna árásinni á Ísraelskum herjeppa.EPA
Í Tel Aviv sjást áhrif eldflaugaárásanna á götum úti.EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×