Erlent

Harðir bardagar standa enn yfir

Jón Þór Stefánsson skrifar
Mynd frá Gaza-svæðinu eftir gagnárás Ísraelsmanna.
Mynd frá Gaza-svæðinu eftir gagnárás Ísraelsmanna. EPA

Þrjú hundruð Ísraelsmenn, hið minnsta, eru látnir eftir árásir Hamas-samtakanna sem hófst í gærmorgun, samkvæmt sendiráði Ísraels í Tyrklandi.

Tala Palestínumanna sem hafa fallið í gagnsókn Ísraelsmanna er 313, samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum í Palestínu. Þá eru tvö þúsund særðir í hvorum hópnum um sig.

Heilbrigðisyfirvöld í Ísrael segja að Hamas hafi tekið tugi gísla. BBC greinir frá því að palestínskir vígamenn hafi í kjölfar eldflaugaárása Hamas í gærmorgun farið til Ísrael og tekið völdin á þónokkrum svæðum í Ísrael.

Sendiráð Ísraels í Bandaríkjunum segir gísl sem Palestínumenn hafi tekið vera um það bil hundrað talsins og vera bæði hermenn og almennir borgarar.

Her Ísraelsmanna hafi þó drepið fjölda þessara Palestínumanna í gagnárás sinni og náð aftur völdum á fjöldamörgum svæðum. Þá hafi þeir tekið tugi gísla.

Ísraelsríki hefur einnig gert miklar árásir á Gaza-svæðið, en BBC greinir frá því að heimili leiðtoga Hamas-samtakanna hafi verið á meðal 150 skotmarka hersins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×