Hazard var einn besti knattspyrnumaður í heimi þegar hann spilaði með Chelsea í ensku úrvalsdeildinni en ferillinn hefur verið á hraðri niðurleið eftir að Real Madrid keypti hann á hundrað milljónir evra árið 2019.
Harzard tilkynnti það á samfélagsmiðlinum Instagram að fótboltaskórnir hans væru komnir upp á hillu eftir sextán ár og meira en sjö hundruð spilaða leiki.
Hazard var aðeins 28 ára gamall þegar hann fór til Real Madrid og átti þá að eiga sín bestu ár eftir. Tímabilin með Real Madrid voru hins vegar hrein hörmung og í sumar komust hann og Real madrid að samkomulagi um að rifta samning hans.
Hazard var lofaður fyrir að vera teknískur, skapandi og útsjónarsamur leikmaður en leikformið var oft til vandræða. Þegar hann meiddist hjá Real Madrid gekk honum skelfilega að halda af sér kílóunum sem gerði endurkomuna enn erfiðari.
Hazard var lengi fyrirliði belgíska landsliðsins en hann skoraði 33 mörk í 126 landsleikjum. Hann sló fyrst í gegn hjá Lille en varð að stórstjörnu í enska boltanum.
Hazard skoraði 85 mörk í 245 leikjum með Chelsea í ensku úrvalsdeildinni frá 2012 til 2019 en hann vann ensku deildina tvisvar, enska bikarinn einu sinni og Evrópudeildina tvisvar með Lundúnafélaginu.
Hazard skoraði aðeins 7 mörk í 76 leikjum í öllum keppnum á fjórum tímabilum sínum með Real Madrid.