Í nótt héldu loftárásir Ísraela á Gasasvæðið áfram og eru tugir taldir hafa fallið. Ísraelsmenn hafa skrúfað fyrir vatn og rafmagn til svæðisins og sömuleiðis stöðvað matar- og eldsneytissendingar þangað.
Orkumálaráðherra Ísrael hefur tilkynnt að Ísraelar muni ekki skrúfa aftur frá fyrr en Hamas-samtökin sleppi þeim gíslum sem þeir hafa tekið. Talið er að gíslarnir séu rúmlega hundrað talsins.
Vantar rafmagn
Stærsti spítali Gasasvæðisins keyrir á rafstöð sem notast við dísil. Eldsneytið klárast eftir fjóra daga og óttast Rauði krossinn að spítalinn muni breytast í líkhús fái þeir ekki eldsneyti á næstunni.
Ákveðin upplýsingaóreiða hefur ríkt síðan átökin stigmögnuðust á laugardagsmorgun og hafa samfélagsmiðlar spilað þar stórt hlutverk. Í bland við myndbönd af raunverulegum grimmdarverkum Hamas hafa myndbönd sem tengjast samtökunum ekki neitt verið eignuð þeim á samfélagsmiðlum. Má þar nefna myndband af unglingsstelpu sem kveikt var í í Gvatemala árið 2015 og myndbönd af eldflaugum vera skotið upp sem reyndust svo vera úr tölvuleik.
Meira að segja er Joe Biden Bandaríkjaforseti einn þeirra sem hefur orðið fórnarlamb óreiðunnar.
Hafði ekki fengið staðfestingu
Á blaðamannafundi sagðist forsetinn hafa séð sannreyndar ljósmyndir af ungbörnum og börnum sem höfðu verið afhausuð af Hamas-liðum. Höfðu nokkrir fjölmiðlar haldið því sama fram en aldrei neinn staðfest fyrr en Biden gerði það.
Nokkrum klukkutímum síðar þurftu talsmenn Hvíta hússins að leiðrétta þetta, Biden hafi aldrei fengið neina staðfestingu heldur hafi hann einungis verið að vísa í fjölmiðla.