Fótbolti

Vonar að fólkið þori að mæta í gulu á leik stelpnanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn sænska landsliðsins í stúkunni á leik Belgíu og Svíþjóðar eftir að hafa frétt af örlögum landa sinna í hryðjuverkaárás í miðbæ Brussel.
Stuðningsmenn sænska landsliðsins í stúkunni á leik Belgíu og Svíþjóðar eftir að hafa frétt af örlögum landa sinna í hryðjuverkaárás í miðbæ Brussel. Getty/Stringer

Sænska kvennalandsliðið í fótbolta er að fara að spila leiki í Þjóðadeildinni í þessari viku alveg eins og það íslenska.

Sænsku stelpurnar spila við sérstakar aðstæður vegna þess að tveir sænskir stuðningsmenn karlalandsliðsins voru drepnir í hryðjuverkaárás í Brussel í Belgíu í síðustu viku.

Svíar ætla að herða mikið öryggisgæsluna í kringum leik sænska liðsins sem er á móti Sviss á Gamla Ullevi leikvanginum í Gautaborg.

Stuðningsmennirnir voru í gulu sænsku landsliðsbúningnum þegar þeir voru skotnir til bana en árásin varð stutt frá leikvanginum þar sem sænska landsliðið spilaði. Leik var hætt í hálfleik og sænsku stuðningsmennirnir voru í lögreglufylgd þar til þeir yfirgáfu Belgíu.

Áhorfendur á leiknum þurfa að fara í gegnum öryggisleit eins og við þekkjum á flugvöllum. Það er þó enginn að tala gegn því að stuðningsmennirnir mæti í sænsku litunum.

„Ég vona að fólk vilji koma í gulu treyjunum sínum til að styðja sænska landsliðið með auðvitað fullri virðingu fyrir þeim sem ákveða annað,“ sagði Martin Fredman, yfirmaður öryggismála hjá sænska sambandinu, í viðtali við Aftonbladet.

Það er von á góðri mætingu á leikinn en sænsku stelpurnar eru að berjast um að komast á Ólympíuleikana í París á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×