Innlent

„Til­efni fyrir alla vald­hafa að hlusta“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Lögregla segist hafa þurft að stækka lokanir í miðbænum í dag, svo mörg voru mætt.
Lögregla segist hafa þurft að stækka lokanir í miðbænum í dag, svo mörg voru mætt. Vísir/Vilhelm

Skipu­leggj­endur kvenna­verk­fallsins segja magnað að hafa fundið fyrir þeirri sam­stöðu sem hafi myndast á Arnar­hóli og víðar í dag. Þær segja fjöldann sem mætti til­efni fyrir vald­hafa til að hlusta.

Lög­regla á­ætlar að á bilinu 70 til 100 þúsund manns hafi mætt á Arnar­hól í dag. Frétta­menn Stöðvar 2 gerðu upp við­burða­ríkan dag í kvöld­fréttum Stöðvar 2.

„Það má alveg segja að fjöldinn hafi farið fram úr okkar björtustu væntingum og það er bara ó­trú­lega magnað að hafa fundið fyrir þessari sam­stöðu sem var hérna á hólnum í dag,“ segir Sonja Ýr Þor­bergs­dóttir, einn skipu­leggj­enda kvenna­verk­fallsins sem ræddi við frétta­stofu á­samt Ingu Auð­björg Straum­land.

Inga segir að vonir hafi staðið til um að stór hluti kvenna og kvára myndi mæta. Það hafi gerst. Sonja Ýr segir fyrirmyndina kvennafrídaginn frá 1975.

Geturðu lýst mikil­vægi dagsins í dag fyrir konur og hverju skilar þetta okkur?

„Auð­vitað er þetta gert að fyrir­mynd 24. októ­ber 1975 sem varð sprengi­kraftur í fram­þróun jafn­réttis­mála hér á landi eins og öll okkar þekkja til og mark­miðið hér í dag var að draga aftur fram mikil­vægi um­ræðu um jafn­réttis­mál og að það sé gripið til að­gerða og ég held að miðað við fólks­fjöldann, það er talað um að það hafi hundrað þúsund mætt hingað í dag, að þá sé til­efni fyrir alla vald­hafa að hlusta á það og taka kröfur dagsins al­var­lega.“

Hvaða skila­boð viljið þið senda til kvenna og kvára sem mættu hingað í dag?

„Við bara vonum að við þurfum aldrei að gera þetta aftur, af því að feðra­veldið sé bara fallið en annars sjáumst við kannski eftir tvö ár.“

Þurftu að stækka lokanir

Ás­geir Þór Ás­geirs­son, segir að gríðar­lega vel hafi gengið í dag. Spurður hversu margir hafi mætt segir hann að besta gisk lög­reglunnar sé á bilinu 70 til 100 þúsund manns.

„Það má deila um það eins og menn vilja og ég mun ekki leggja mikið í það. En það sem kannski þurfti ekki að deila um er að við þurftum að stækka lokanirnar miðað við það sem við höfðum gert ráð fyrir í byrjun og það var þéttara og fólkið í kringum Arnar­hól tók meira pláss heldur en hefur verið á Arnar­hóli á menningar­nótt.“

Hvernig fór þetta fram?

„Þetta fór bara af­skap­lega vel fram. Einu verk­efni lög­reglu voru bara að­stoðar­verk­efni við fólk þar sem kannski komu upp veikindi, sem er bara við­búið þar sem svona margt fólk kemur saman.“

Voru konurnar í verk­falli hjá ykkur?

„Við hvöttum þær til að vera í verk­falli en það voru ein­hverjar sem kusu að koma á vakt og nokkrar þeirra komu og unnu við þennan við­burð og voru þá í bænum. En þetta var al­farið í þeirra höndum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×