Erlent

Erdogan afboðar heimsókn til Ísrael og segir Hamas „frelsishreyfingu“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tyrkir hafa beitt sér að því að koma viðræðum á milli aðila frá því að átökin brutust út.
Tyrkir hafa beitt sér að því að koma viðræðum á milli aðila frá því að átökin brutust út. epa/Necati Savas

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur afboðað fyrirhugaða heimsókn sína til Ísrael og kallað eftir tafarlausu vopnahléi milli Ísraelsmanna og Hamas.

Forsetinn sagði Tyrkland myndu freista þess að leita allra leiða til að koma á friði en að Ísraelsmenn hefðu misnotað góðan vilja Tyrkja og að þeir þyrftu að hlýða á áköll um frið og láta af árásum sínum á Gasa.

Erdogan sagði Hamas ekki hryðjuverkasamtök heldur „frelsishreyfingu“ sem væri að heyja baráttu til að verja landið sitt. Hann hefði ekkert á móti Ísrael, heldur stefnu þarlendra stjórnvalda. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Erdogan kemur Hamas til varna:

„Við eigum ekkert sökótt við Ísraelsríki en höfum aldrei og munum aldrei leggja blessun okkar yfir þau hroðaverk sem Ísrael hefur framið né þá staðreynd að það hegðar sér eins og samtök frekar en ríki,“ sagði forsetinn.

Vesturlönd stæðu í þakkarskuld við Ísrael en það gilti ekki um Tyrkland.

Þá sagði hann að utanaðkomandi ríki ættu að hætta að hella olíu á eldinn með stuðningi við Ísrael og að múslimaríkin ættu að vinna saman að varanlegum friði. 

Ummælin lét forsetinn falla þegar hann ávarpaði þingmenn í morgun en hann sagði einnig að það væri mikilvægt að ljúka fangaskiptum sem fyrst og að halda Rafah-landamærunum opnum fyrir neyðaraðstoð.

Framganga forsetans hefur þegar verið gagnrýnd harðlega, meðal annars af Matteo Salvini, aðstoðarforsætisráðherra Ítalíu, sem lýsti orðum Erdogan sem „ógeðslegum“.

Ísraelsmenn hafa neitað að gefa út vegabréfsáritanir til starfsmanna Sameinuðu þjóðanna í dag vegna ummæla sem framkvæmdastjórinn António Guterres viðhafði í gær um skýr mannréttindabrot Ísraelsmanna.

Kallað var eftir tafarlausri afsögn Guterres.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×