Í tilkynningu frá náttúruverndarsamtökunum segir að samkvæmt upplýsingum á vef Matvælastofnunar hafi leyfi Artic Sea Farm í Patreksfirði og Tálknafirði runnið út hinn 27. ágúst síðastliðinn. Matvælastofnun hafi ekki brugðist við og stöðvað starfsemina eins og rétt sé að gera.
Tekið skal fram að samtökin sjálf gera þann fyrirvara að leyfið virðist hafa runnið út ef miðað er við opinbera skráningu á fyrrgreindri vefsíðu. Hins vegar verði ekki séð að gefið hafi verið út annað leyfi og þá hafi ekki reynst unnt að afla staðfestingar frá MAST þar um.
„Vakin er athygli á því að lokum að ef rétt reynist að Matvælastofnun hafi, þrátt fyrir vitneskju þar um og fortakslaus fyrirmæli 1. mgr. 21. gr. c laga nr. 71/2008, látið hjá líða um tveggja mánaða skeið að stöðva starfsemi fiskeldisstöðva sem starfað hefur án gilds rekstrarleyfis samkvæmt lögum nr. 71/2008 kann það að varða hlutaðeigandi starfsmenn hennar ábyrgð og eftir atvikum einnig ráðherra ef eftirlit hans með starfrækslu stofnunarinnar hefur ekki verið fullnægjandi að þessu leyti,“ segir í tilkynningu sem lögmaður samtakanna sendir fyrir þeirra hönd.
Þá kemur einnig fram að afrit af erindinu hafi verið sent matvælaráðherra til upplýsingar í ljósi yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverks hans gagnvart Matvælastofnun.