Körfubolti

Er­lendu leik­menn Grinda­víkur vel upp­lýstir: „Nóttin var ekkert eðli­leg“

Aron Guðmundsson skrifar
Ólafur Ólafsson er fyrirliði karlaliðs Grindavíkur í körfubolta og segir erlendu leikmenn liðsins vel upplýsta um stöðu mála varðandi þær jarðhræringar sem eiga sér stað nú í námunda við Grindavík
Ólafur Ólafsson er fyrirliði karlaliðs Grindavíkur í körfubolta og segir erlendu leikmenn liðsins vel upplýsta um stöðu mála varðandi þær jarðhræringar sem eiga sér stað nú í námunda við Grindavík Vísir/Samsett mynd

Ólafur Ólafs­­son, fyrir­­liði Grinda­víkur í körfu­­boltanum, segir vel haldið utan um er­­lendu leik­­mennina í liðinu sem eru flestir að finna fyrir al­­menni­­legri jarð­­skjálfta­­virkni í fyrsta sinn á ævinni þessa dagana. Órói hefur gert vart um sig á svæðinu en Ólafur sjálfur er ró­­legur yfir stöðunni og svaf hann af sér skjálfta næturinnar.

„Við pössum það allir og þá sér­stak­lega stjórn körfu­knatt­leiks­deildarinnar,“ segir Ólafur við Vísi að­spurður hvort er­lendu leik­menn Grinda­víkur séu vel upp­lýstir um stöðu mála varðandi ó­róann sem er ríkjandi á svæðinu um­hverfis Grinda­vík.

„For­maðurinn er mikill ljós­myndari, myndar náttúruna mikið og þegar að það gýs þá er hann yfir­leitt fyrstur á svæðið með mynda­vélina. Hann er dug­legur að upp­færa þá er­lendu leik­menn sem eru á mála hjá okkur um stöðu mála. Ég hef sagt þeim að það séu ekki miklar líkur að þú látir lífið ef það kemur til eld­goss. Þetta er til­tölu­lega hæg at­burða­rás sem fer af stað. 

Þetta tekur allt sinn tíma. Það hættu­lega við þetta er kannski gasmengunin ef það fer að gjósa. Við höfum út­skýrt þetta allt fyrir þeim. Daninn hjá okkur er búinn að ná þessu en maður finnur það alveg að það brenna fleiri spurningar á Banda­ríkja­mönnunum hjá okkur.“

Óþægilegt að finna fyrir þessu

Það sé mis­jafnt eftir mönnum hvernig þeir upp­lifa skjálftana.

„Basil­le hefur verið á Íslandi í nokkur ár og hefur nú eitt­hvað upp­lifað þetta áður en kannski ekki svona kröftuglega. Daninn hjá okkur, Mor­ten­sen, hefur ekki upp­lifað svona skjálfta áður en hann er samt sem áður voða ró­legur yfir þessu. Það er aðal­lega nýi kaninn hjá okkur, DeAndre Kane sem var skiljan­lega ekkert hrifinn af þessu þegar að þetta byrjaði.“

DeAndre Kane gekk til liðs við Grindavík í upphafi tímabilsVísir / Anton Brink

„Það þurfti að út­skýra fyrir honum að húsin hér á Ís­landi eru meðal annars byggð með það að leiðar­ljósi að geta staðið af sér ansi kröftuga skjálfta. Það er ó­þægi­legt að finna fyrir þessum skjálftum. Ó­þægi­legt að vakna upp við þá á miðri nóttu. Það er aðal­lega það sem hefur angrað þessa leik­menn. En það er mikil­vægt, og við pössum vel upp á það, að þeir séu vel upp­lýstir um stöðu mála.“

Svaf af sér „ekkert eðlilega nótt“

Sjálfur er Ólafur ró­legur yfir stöðu mála.

„Ég er af­skap­lega ró­legur yfir þessu og er líka einn af þeim fáu sem svaf í alla nótt. Auð­vitað finn ég alveg fyrir þessum stóru skjálftum sem hafa verið koma, þeir eru ó­þægi­legir en ég er ekki að vakna á nóttunni.“

Það sama gildi þó ekki um fólkið sem stendur honum næst.

„Konan mín vaknaði til dæmis í nótt við stóran skjálfta. Þessi nótt var ekkert eðli­leg. Ég vaknaði sjálfur klukkan sjö í morgun og fann svo fyrir þessum stóru skjálftum sem komu um átta leytið.

Það eru flest allir í fjöl­skyldunni minni búnir að vera vakandi síðan klukkan fjögur í nótt þegar að það komu þarna nokkrir stórir skjálftar með nokkurra mínútna milli­bili. Það er ó­þægi­legt þegar að maður verður vitni af þessu.“

Vel meðvituð um stöðu mála

Ólafur vonast til þess að upp­lýsinga­fundur sem haldinn var fyrir bæjar­búa Grinda­víkur í gær veki upp öryggis­til­finningu hjá bæjar­búum.

„Það var þægi­legt fyrir fólk að fá þessar upp­lýsingar því við vitum ekki hvað kemur til með að gerast á endanum. Það er öryggi fólgið í því fyrir fólk að vita stöðuna ná­kvæm­lega eins og hún er.“

Eigin­kona Ólafs vinnur í Bláa lóninu og rétt vestur af því átti kröftugur skjálfti að stærðinni 4,2 upp­tök sín í nótt.

„Hún er að vinna í Bláa lóninu og auð­vitað ekkert þægi­legt vitandi af þessu krauma þarna ná­lægt þessum stað og hún að vinna þarna. Það er þó búið að fara vel yfir stöðuna með starfs­mönnum þarna og þau eru vel með­vituð um stöðuna.

Þá er búið að fara vel yfir allar rýmingar­á­ætlanir með bæjar­búum. Vonandi upp­lifa bæjar­búar sömu ró og ég fann fyrir eftir að hafa fengið upp­lýsingarnar sem komu fram á þessum fundi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×