Sport

„Eins og gengur og gerist er maður ekki á­nægður með allt“

Andri Már Eggertsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson á hliðarlínunni í leik dagsins
Snorri Steinn Guðjónsson á hliðarlínunni í leik dagsins Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska landsliðsins í handbolta, var ekki ánægður með síðari hálfleik liðsins í dag. Ísland vann eins marks sigur 30-29. 

„Þeir stjórnuðu hraðanum í dag og voru með frumkvæðið þegar þeir spiluðu með sjö sóknarmenn sem við fundum ekki nægilega góðar lausnir við. Við reyndum að prófa ákveðna hluti en fundum ekki taktinn og takturinn var ekki eins og ég vildi hafa hann,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson eftir leik. 

Snorri var ánægður með margt í fyrri hálfleik en hefði viljað vera með fimm marka forystu í hálfleik í stað fjögurra. 

„Fyrri hálfleikur var svipaður og í gær. Við vorum við það að ná frumkvæðinu en vorum klaufar að vera ekki fimm mörkum yfir í hálfleik. Við byrjuðum síðari hálfleik illa og þeir náðu að komast yfir sem var öfugt við það sem gerðist í gær.“

Síðari hálfleikur Íslands var ekki góður. Færeyjar spiluðu mikið með sjö leikmenn í sókn sem gerði Íslandi erfitt fyrir. 

„Mér fannst við ekki ná okkar takti þegar að þeir voru að spila einum fleiri í sókn. Mér fannst vanta meiri hraða og við vorum ekki að mæta þeim maður á mann og síðan vorum við með mikið af töpuðum boltum og við fórum illa með dauðafæri.

Snorri Steinn var ánægður með verkefnið í heild sinni og hlakkaði til að fara með liðið á EM í janúar. 

„Ég er glaður með þetta verkefni og ánægður með vikuna og strákana. Eins og gengur og gerist er maður ekki ánægður með allt. Leikurinn í gær var betri en leikurinn í dag. Við þurfum núna að greina leikina og æfingarnar og mætum síðan stinnir í janúar,“ sagði Snorri Steinn að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×