Kallað var eftir umsögnum um þessar ætlanir á Samráðsgáttinni á föstudaginn. Í meðfylgjandi gögnum kemur fram að hækkunin á kolefnisgjaldi sé hluti af fyrirhuguðum kerfisbreytingum á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Meginmarkmiðið sé að endurheimta tekjur af þeim skattstofnum en áformin eiga að vera hlutlaus gagnvart heimilunum og verðbólgu.
Það er vegna þess að lækka á bensíngjald til móts við hækkun kolefnisgjalds.
„Heildarbreytingin er því til hækkunar á dísil en lækkunar á bensíni,“ segir í skjölum sem fylgja umsagnabeiðninni.
Samkvæmt þessum ætlunum á kolefnisgjald að hækka um um það bil fimm krónur á lítra en það fer eftir kolefnisinnihaldi eldsneytistegunda. Við það eiga tekjur ríkisstjóðs að hækka um 3,1 milljarða króna.
Bensíngjald á að lækka um sex krónur á lítra, sem myndi fela í sér tekjulækkun fyrir ríkissjóð upp á 0,6 milljarða. Breytingarnar myndu taka gildi í upphaf næsta árs.
Skrifstofa skattamála telur metur það svo að breytingarnar muni engin áhrif hafa á vísitölu neysluverðs og að verð á lítra af dísil myndi hækka um sjö krónur og bensínverð myndi lækka um tvær.
Styður markmið í loftlagsmálum
„Markmið breytinganna er að styðja við metnaðarfull markmið stjórnvalda í loftlagsmálum og auka tekjuöflun ríkissjóðs í ljósi samdráttar á tekjum af skattlagningu ökutækja og eldsneytis,“ segir á Samráðsgáttinni.
Þar segir að hækkun kolefnisgjalds sé skilvirk leið til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og dregur hún einnig úr líkum á að innflytjendur eldsneytis til Íslands þurfi að kaupa loftslagsheimildir í nýju evrópsku viðskiptakerfi með losunarheimildir.