Viðskipti innlent

Hætta að dreifa fjöl­pósti á lands­byggðinni

Atli Ísleifsson skrifar
Fjöldreifingu var hætt á suðvesturhorni landsins árið 2020.
Fjöldreifingu var hætt á suðvesturhorni landsins árið 2020. Vísir/Vilhelm

Pósturinn mun alfarið hætta að dreifa fjölpósti um næstu áramót. 

Frá þessu greinir á vef Póstsins. Þar segir að fjöldreifingu hafi verið hætt á suðvesturhorni landsins árið 2020 en fjölpósti hafi hins vegar áfram verið dreift á landsbyggðinni, sér í lagi þar sem ekki hafi verið kostur á öðrum dreifingaraðila. Nú hafi hins vegar verið ákveðið að hætta þeirri dreifingu einnig.

„Í gegnum tíðina hefur fjölpósti verið dreift með almennum bréfum en bréfapóstur hefur hins vegar dregist saman um 80% frá árinu 2010 svo samlegðaráhrifin eru ekki lengur til staðar.

Þessi ákvörðun er einnig í takt við umhverfisstefnu Póstsins en við leitum stöðugt leiða til að draga úr sóun og losun koltvísýrings. Svo hefur þeim fækkað verulega sem senda fjölpóst, enda nýta margir sér rafræna miðla til þess að koma upplýsingum og efni á framfæri.

Frá 1. janúar verður eftir sem áður hægt að senda markpóst, t.d. bæklinga og auglýsingaefni, sem almennt bréf en hann mun þá lúta skilmálum bréfa varðandi verðskrá, dreifingarplan og nafnamerkingu.

Pósturinn mun verða viðskiptavinum innan handar og svara helstu spurningum sem kunna að vakna í tengslum við þessa þjónustubreytingu,“ segir á vef Póstsins. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×