Innlent

Hröð hand­tök hafi lík­­lega bjargað gögnunum

Vésteinn Örn Pétursson og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Penninn Eymundsson við Skólavörðustíg.
Penninn Eymundsson við Skólavörðustíg. Vísir/Vilhelm

Fjármálastjóri Pennans Eymundssonar segir hröð handtök hafa orðið til þess að ekki sé útlit fyrir að tölvuþrjótar hafi náð að stela upplýsingum um viðskiptavini verslunarinnar.

Allar 16 verslanir Pennans Eymundssonar á landinu hafa verið lokaðar frá því um hádegi í dag, vegna netárásar á fyrirtækið. Nú er allt útlit fyrir að tölvuþrjótunum sem stóðu að baki árásinni hafi ekki tekist ætlunarverk sitt. 

„Í stuttu máli uppgötvaði tæknimaður að það væri veira í dreifingu og hafði samband við okkar tæknimenn og stuttu seinna er netsamband rofið í fyrri tækinu. Það er bara verið að setja upp nýja netþjóna og setja upp nýjar tölvur,“ segir Guðrún Eva Jóhannesdóttir, fjármálastjóri Pennans Eymundssonar, í samtali við fréttastofu.

Ekki útlit fyrir stolnar upplýsingar

Ekki fáist séð að persónuupplýsingum um viðskiptavini hafi verið stolið, né öðrum gögnum. Það sé þó ekki endanlega útilokað. 

„Hröð handtök björguðu okkur. Það var ekki búið að setja veiruna í gang til að hefja gagnagíslingu. Þetta var Akira-veira, sem tekur gögn í gíslingu og þeir fara svo fram á peninga,“ segir Guðrún Eva. 

Unnið verði að viðgerð í kvöld og fram á morgun. Því megi búast við því að starfsemi verslana fyrirtækisins verði skert að einhverju leyti í fyrramálið. 

„Það þarf að endurræsa tölvurnar, strauja þær. Við vorum að velta fyrir okkur hvort það þyrfti bara að endurræsa sýktar vélar en gerum allar til að vera örugg.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×