Í einni árásinni var sprengja sprengd nærri bandarískum og írökskum hermönnum við Mosul í Írak en engan sakaði þar, samkvæmt heimildum Reuters. Eitt farartæki hermannanna varð fyrir skemmdum.
Í annarri áras í morgun var sjálfsprengidróna flogið að herstöð Bandaríkjanna nærri Baghdad en sá dróni var skotinn niður.
Annar dróni var skotinn niður nærri herstöð Bandaríkjanna við Erbil í norðurhluta Írak. Yfirlýsing frá írökskum Kúrdum er frábrugðinn yfirlýsingu yfirvalda í Írak en þar segir að nokkrir drónar hafi verið notaðir við árásina við Erbil og þeir hafi valdið skaða á olíugeymslu. Þá segja Kúrdar að bandarískir hermenn hafi yfirgefið umrædda herstöð í síðasta mánuði.
Í frétt CNN segir svo að eldflaugum hafi tvisvar sinnum verið skotið að bandarískum hermönnum í Sýrlandi eftir loftárásina í gær. Þrír hermenn eru sagðir hafa særst lítillega í þessum árásum.
Tugir árása og 56 lítillega særðir
Í heildina hafa verið gerðar fleiri en fjörutíu árásir á bandaríska hermenn í Írak og Sýrlandi frá því stríðið milli Ísrael og Hamas á Gasaströndinni hófst. 56 hermenn eru sagðir hafa særst í þessum árásum en enginn alvarlega.
Bandaríkjamenn kenna vígahópum sem yfirvöld í Íran styðja um árásirnar og gerðu þeir þess vegna árás á vopnageymslu Írana í Sýrlandi í gær. Eftir loftárásirnar í gær varaði Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, við því að fleiri slíkar árásir yrðu gerðar, ef árásirnar á bandaríska hermenn héldu áfram.
Sjá einnig: Vörpuðu sprengjum á byltingarverði í Sýrlandi
Bandaríski herinn birti myndband af loftárásinni í gær, þegar tvær F-15 herþotur voru notaðar til að varpa sprengjum á vopnageymsluna í Maysulun í Sýrlandi.