Innlent

Stærri kviku­gangur en í síðustu eld­gosum og mikil kvika

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ekki er hægt að útiloka að kvikugangur nái til Grindavíkur þar sem hann geti opnast. Um er að ræða stærri kvikugang en í síðustu eldgosum á Reykjanesskaga og er mikil kvika undir jörðinni.
Ekki er hægt að útiloka að kvikugangur nái til Grindavíkur þar sem hann geti opnast. Um er að ræða stærri kvikugang en í síðustu eldgosum á Reykjanesskaga og er mikil kvika undir jörðinni. Vísir/Vilhelm

Veðurstofa hefur upplýst að ekki sé hægt að útiloka að kvikugangur nái til Grindavíkur og geti opnast. Að sögn sviðsstjóra almannavarna er um stærri kvikugang að ræða en sást í síðustu eldgosum á Reykjanesskaga og er mikil kvika undir jörðinni.

Almannavarnir héldu upplýsingafund upp úr ellefta tímanum í kvöld þar sem Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, greindi frá því að rýma ætti Grindavík vegna kvikugangs sem ýtist upp til yfirborðs og sat fyrir svörum blaðamanna. Hér verður farið yfir þær upplýsingar sem komu fram á fundinum er varða kvikuganginn.

Aðspurður út í stærð kvikugangsins í samanburði við kvikugangana í eldgosunum í Fagradalsfjalli og við Litla-Hrút sagði Víðir að um óvenjustóran kvikugang væri að ræða. Mikil kvika væri undir jörðinni og meira jarðhnik en hefur sést.

Hversu ofarlega er kvikugangurinn?

„Ekki er vitað nákvæmlega hversu ofarlega kvikugangurinn er en hann hefur færst hratt að yfirborðinu,“ sagði Víðir og þess vegna væri gott ef íbúar væru búnir að yfirgefa bæinn á næstu tveimur tímum.

Er þörf á því að rýma stærra svæði en Grindavík?

„Miðað við upplýsingar jarðfræðinga er ekki þörf á því að rýma stærra svæði en Grindavík,“ sagði hann.

Þá bætti Víðir við að öflugur hópur vísindamanna ynni að því að vinna gögn í rauntíma til að hægt væri að meta stöðuna eftir því sem hún þróaðist og eyða allri óvissu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×