Innlent

Spyr hvers vegna HS Orka og Bláa lónið séu stikk­frí

Jakob Bjarnar skrifar
Guðjón er meðal margra sem veltir því fyrir sér hvers vegna HS Orka og Bláa lónið leggi ekki meira að mörkum þegar á bjátar.
Guðjón er meðal margra sem veltir því fyrir sér hvers vegna HS Orka og Bláa lónið leggi ekki meira að mörkum þegar á bjátar. vísir/vilhelm

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur orðar þar sem margir hugsa þegar hann spyr hvers vegna einkafyrirtækin HS Orka og Bláa lónið sleppi frá því að leggja í púkkið við byggingu varnargarða?

Alþingi samþykkti í nótt frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga. Greiddu 57 þingmenn atkvæði með frumvarpinu.

Með frumvarpinu er ráðist í gerð verndargarða í kringum orkuverið á Svartsengi. Til að fjármagna verndargarðana var aukin skattheimta samþykkt á allt húsnæði í landinu til þriggja ára.

Guðjón veltir þessu fyrir sér eins og svo margir og spyr: „Af hverju eru einkafyrirtækin HS Orka og Bláa lónið, sem hafa grætt milljarða á undanförnum árum, ekki látin borga amk. hluta af kostnaðinum við varnargarðana? Þess í stað er lagður nýr skattur á þorra almennings til að borga kostnaðinn.“

Fjöldi manna lýsir sig sammála Guðjóni en Bláa lónið er fyrirtæki sem virðist sleppa nokkuð létt frá öllum kostnaði þegar á bjátar og er skemmst að minnast þess að fyrirtækið þáði stuðningsstyrk vegna Covid eftir að hafa greitt sér rúmlega 12,3 milljarða arð frá árinu 2012 og námu þær greiðslur 823 milljónum í stuðningsgreiðslur. Á móti má spyrja hvort reglur verði ekki að vera almennar?

Eins og áður sagði eru margir sem velta þessu fyrir sér, hvernig byrðarnar dreifast og hér er annað dæmi um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×