Fanndís Friðriksdóttir skoraði 4 mörk í 16 leikjum í Bestu deild kvenna í sumar eftir að hafa snúið til baka eftir tæplega tveggja ára fjarveru. Fanndís sleit krossband og eignaðist sitt annað barn í millitíðinni.
Fanndís hefur alls skorað 115 mörk í 232 leikjum í efstu deild þar af skoraði hún 97 af þessum mörkum fyrir Breiðablik þar sem hún spilaði stærsta hluta síns ferils.
Fanndís verður 34 ára gömul næsta sumar en hún hefur verið í herbúðum Valsliðsins frá árinu 2018 og unnið Íslandsmeistaratitilinn þrisvar sinnum með félaginu.
Fanndís lék á sínum tíma 109 landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim 17 mörk.
Fanndís er þriðji leikmaðurinn á stuttum tíma sem framlengir samning sinn við Íslandsmeistarana en áður höfðu miðvörðurinn Arna Sif Ásgrímsdóttir og markvörðurinn Fanney Inga Birkisdóttir skrifað undir nýja samninga við Val.