Erlent

Slíta stjórn­mála­sam­bandi við Ísrael þar til vopna­hlé verður sam­þykkt

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Cyril Ramaphosa er forseti Suður-Afríku.
Cyril Ramaphosa er forseti Suður-Afríku. AP/Jerome Delay

Löggjafarþing Suður-Afríku hefur samþykkt tillögu þess efnis að sendiráði Ísraels í landinu verði lokað og stjórnmálasambandi ríkjanna tveggja slitið, uns Ísrael samþykkir vopnahlé á Gasa.

AP-fréttaveitan greinir frá því að tillagan hafi notið stuðnings Afríska þjóðarráðsins, stjórnmálaflokks forsetans Cyril Ramaphosa. Tillagan hafi litið dagsins ljós á sama tíma og Ramaphosa sakaði Ísrael um þjóðarmorð á Gasa.

Hún var lögð fram af Útvörðum efnahagsfrelsis, sem er í stjórnarandstöðu, og hlaut mikinn stuðning. 248 þingmenn studdu tillöguna en 91 lagðist gegn henni.

Spennan í samskiptum ríkjanna tveggja hefur magnast umtalsvert eftir innrás Ísraels inn á Gasa í síðasta mánuði. Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, hefur áður lýst því yfir að jafna megi framgöngu Ísraelsmanna í átökunum við stríðsglæpi. 

Þá tilkynntu stjórnvöld í Suður-Afríku í síðustu viku að þau hefðu vísað því sem þau kölluðu „þjóðarmorð Ísraels“ til alþjóðasakamáladómstólsins til rannsóknar, og hvöttu til þess að handtökuskipan yrði gefin út á hendur Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×