Handbolti

Þórir vonast eftir því að nýja mamman verði klár í markið á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Silje Solberg og Katrine Lunde fagna með norska landsliðinu á síðustu Ólympíuleikum.
Silje Solberg og Katrine Lunde fagna með norska landsliðinu á síðustu Ólympíuleikum. Getty/Dean Mouhtaropoulos

Bestu markverðir Norðmanna undanfarin ár eru báðar í kapphlaupi við tímann að ná heimsmeistaramótinu í handbolta sem hefst í næstu viku.

Þetta eru þær Katrine Lunde (spilar með Våg Håndball Elite) og Silje Solberg-Østhassel (spilar með Győr í Ungverjalandi). Þær hafa spilað vel með norska liðinu á stórmótum síðustu ár og báðar hafa þær komist í úrvalslið á stórmóti þó Lunde miklu oftar.

Á blaðamannafundi fyrir mótið var Þórir Hergeirsson, þjálfari norska landsliðsins, bjartsýnn á það að þær verði báðar með. „Þær eru að braggast vel og þetta er allt á leiðinni í rétta átt,“ sagði Þórir á fjölmiðlafundi.

Norska liðið undirbýr sig á æfingamóti um helgina en þar mun íslensku stelpurnar einnig taka þátt.

Bæði Katrine og Silje eru að æfa með norska liðinu. Það verða aftur á móti þær Marie Davidsen og Olivia Lykke Nygaard sem spila leikina á móti Angóla, Íslandi og Póllandi á mótinu.

Lunde hefur verið að glíma við vöðvameiðsli síðan í lok október en hún er orðin 43 ára gömul.

Solberg-Østhassel hefur aftur á móti ekki spilað leik síðan hún varð móðir 9. ágúst síðastliðinn.

Davidsen er leikmaður CSM Bucharest), Nygaard spilar með Storhamar og þriðji markvörðurinn er síðan Eli Marie Raasok hjá Storhamar.

Davidsen gerir sér grein fyrir því að Katrine og Silje eru aðalmarkverðir liðsins. „Þetta er svolítið ógnvekjandi. Það er ekki möguleiki að fylla í skörð Silja og Katrine. Þú þarft bara að gera þitt besta og reyna að verja eins mörg skot og mögulegt er, sagði Marie Davidsen við NRK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×