„Við höfum fengið frábærar móttökur hjá bæði fyrirtækjum og einstaklingum á Íslandi. Eftir að hafa breitt úr okkur um allt höfuðborgarsvæðið þá hófum við starfsemi í Reykjanesbæ í október og núna getum við loksins boðið leiftursnöggar heimsendingar fyrir heimili og fyrirtæki á Selfossi og í Hveragerði,“ segir Elisabeth Stenersen framkvæmdastjóri Wolt á Íslandi í tilkynningu.
Í upphafi séu Selfoss og Hveragerði sjálfstæð þjónustusvæði en svæðin verði mögulega sameinuð svo viðskiptavinir geti pantað vörur úr öðrum bænum yfir í hinn.
Auk veitingastaða á borð við KFC, Takkó, Hipstur og Pylsuvaginn geta viðskiptavinir pantað nýskorin blóm frá Blómaborg, ís frá Bongó og bakkelsi og brauð frá Almari bakara. Í heildina býður Wolt heimsendingarþjónustu frá 24 fyrirtækjum á Selfossi og í Hveragerði.
„Allt frá því við hófum rekstur á Íslandi þá höfum við stefnt að því að bjóða þjónustuna sem víðast og að gefa Íslendingum sama aðgengi að heimsendingarþjónustu og þekkist víða í stórborgum. Móttökurnar á Selfossi og í Hveragerði eru frábærar. Við bjóðum núna heimsendingu frá nánast öllum veitingastöðum á svæðinu sem er alveg einstakt. Við erum líka spennt fyrir því að geta bætt fleiri stöðum við til að efla vöruúrval og stuðla að uppbyggingu fyrirtækjanna á svæðinu,“ segir Elisabeth.
Wolt hóf starfsemi í Reykjavík í byrjun maí. Hafnarfjörður og Mosfellsbær bættust við í ágúst og Reykjanesbær í október. Wolt segist nú ná til um 75 prósent þjóðarinnar eftir viðbótina í Hveragerði og Selfossi.