Erlent

Nýja-Sjá­land verði ekki reyk­laust

Bjarki Sigurðsson skrifar
Nýsjálendingar fæddir 2008 og síðar fá að kaupa sér sígarettur eftir allt saman.
Nýsjálendingar fæddir 2008 og síðar fá að kaupa sér sígarettur eftir allt saman. Getty

Ný ríkisstjórn í Nýja-Sjálandi stefnir á að hætta við áform um að gera landið reyklaust. Er verkefnið eitt af þeim sem á að hverfa til þess að lækka skatta í landinu. 

Í desember árið 2021 tilkynnti heilbrigðisráðuneyti Nýja-Sjálands útfærslu sína á því hvernig landið yrði reyklaust á næstu árum. Fól það í sér að enginn sem fæddur er árið 2008 eða síðar fengi nokkurn tímann að kaupa sér sígarettur. Það bann hefði tæknilega ekki farið af stað fyrr en 2026, árið sem sá árgangur verður átján ára og ætti þar með að geta keypt sér tóbak. 

Markmiðið var að fækka þeim sem reykja úr átta prósent þjóðarinnar niður í fimm prósent fyrir árið 2025. Síðan átti landið að verða alveg reyklaust seinna meir. 

Þessu var mótmælt af mörgum á þinginu, sem og búðareigendum sem selja tóbak, sem töldu sig vera að tapa gríðarlega á ákvörðuninni.

Þeir fagna nú eftir að ríkisstjórn nýs forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Cristopher Luxon, ákvað að leggja það fram að slaufa áformunum . Luxon var einn þeirra þingmanna sem mæltu gegn banninu á sínum tíma. Er þessi ákvörðun sögð hafa verið tekin til þess að fjármagna skattalækkanir sem flokkurinn boðaði í kosningum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×