Innlent

Vanda­mál í ára­tugi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Krakkarnir fóru meðal annars með strætisvagninum yfir fjölfarin gatnamót.
Krakkarnir fóru meðal annars með strætisvagninum yfir fjölfarin gatnamót. Vísir/Vilhelm

Ungmenni náðust á myndband þar sem þau héngu aftan á strætisvagni á Háaleitisbraut í Reykjavík, úr Lágmúla og yfir í Háteigshverfi. Framkvæmdastjóri Strætó segir um að ræða vandamál sem hafi þekkst í áratugi.

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari fréttastofunnar, rak augun í ungmennin þar sem þau komu sér fyrir aftan á strætisvagninum á strætóskýli rétt hjá gatnamótum Lágmúla og Háaleitisbrautar.

Þau héngu svo utan á strætisvagninum þar sem hann keyrði yfir gatnamót Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar og út Skipholtið þar sem þau hoppuðu af við Háteigsskóla.

Klippa: Ungmenni hanga á strætisvagni

Lífshættulegt

„Þetta er búið að vera vandamál í áratugi,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson í samtali við Vísi. Hann segir forsvarsmenn Strætó reglulega biðla til foreldra og skólayfirvalda um að brýna fyrir börnum um hve hættulegt athæfi sé að ræða.

Jóhannes segir erfitt að meta það hvort þetta sé algengt. „Við verðum svo sem ekkert varir við þetta nema þegar við sjáum svona myndbönd. En vagnstjórarnir tala um að þeir stoppi oft krakka sem ætli að gera þetta,“ segir Jóhannes.

Hann segir elstu menn hjá Strætó muna eftir slíkum málum langt aftur í tímann. Þetta sé stórhættulegt.

„Við hvetjum bara alla til þess að vera ekki að stunda svona iðju. Því að vagnstjórinn hefur ekki hugmynd um það hvort það hangi einhver aftan á og svo þegar hann er kominn á 30, 40 þá er þetta bara orðið lífshættulegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×