Handbolti

Þórir og norsku konurnar hófu HM á risa­sigri

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins.
Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins. Vísir/EPA

Noregur og Spánn unnu bæði stórsigra þegar liðin léku sína fyrstu leiki á heimsmeistramóti kvenna í handknattleik í kvöld.

Noregur tók á móti Grænlandi í leik sem fyrirfram var búist við að yrði leikur kattarins að músinni. Sú varð líka raunin. Margreynt lið Noregs fór illa með grænlenska liðið sem er að leika á sínu fyrsta heimsmeistaramóti.

Staðan í hálfleik var 19-7 í hálfleik og Noregur steig ekkert af bensíngjöfinni í síðari hálfleik og jók forystuna jafnt og þétt. Lokatölur urðu 43-11 og óhætt að segja að lærimeyjar Þóris Hergeirssonar byrji heimsmesitaramótið á heimavelli vel.

Camilla Herrem var markahæst í norska liðinu í kvöld.Vísir/EPA

Camilla Herrem var markahæst norsku kvennanna með sjö mörk og Stine Skogrand skoraði sex.

Í hinum leik kvöldsins mættust lið Spánar og Kasakstan. Þar voru Spánverjar með mikla yfirburði eins og búist var við. Spænska liðið var 14-8 yfir í hálfleik og enduðu á því að skora tvöfalt fleiri mörk en lið Kasakka. Lokatölur 34-17.

Maitane Martinez, Kaba Cissokho og Mireya Alvaraez voru markahæstar hjá Spáni en þær skoruðu allar fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×