Fótbolti

Markaskorarinn ögraði með ísraelska fánanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dan Biton fagnar marki sínu gegn Breiðabliki með ísraelska fánann.
Dan Biton fagnar marki sínu gegn Breiðabliki með ísraelska fánann. vísir/anton

Dan Biton, leikmaður Maccabi Tel Aviv, fagnaði marki sínu gegn Breiðabliki í Sambandsdeild Evrópu á Kópavogsvelli með ísraelska fánann.

Biton kom Ísraelsmönnunum yfir á 35. mínútu þegar hann skoraði með skoti fyrir utan vítateig.

Hann hljóp í kjölfarið að varamannabekk Maccabi Tel Aviv þar sem hann fékk flennistóran ísraelskan fána. Hann fagnaði með fánann fyrir framan stúkuna á Kópavogsvelli sem mæltist ekki vel fyrir hjá stuðningsmönnum Breiðabliks.

Biton fékk gult spjald fyrir athæfið en leikmenn Maccabi Tel Aviv voru afar ósáttir við það og umkringdu dómara leiksins, Luka Bilbija.

Biton fær gula spjaldið fyrir fánafagnið.vísir/anton

Mikill hiti er á Kópavogsvelli en stuðningsmenn Ísraels og Palestínu hafa mótmælt fyrir utan hann. Stuðningsmenn Palestínu eru mættir til að mótmæla aðgerðum Ísraels á Gasaströndinni en stuðningsmenn Ísraels eru ósáttir með framferði Hamas-samtakanna.

Staðan í leiknum er 1-1 en Gísli Eyjólfsson jafnaði fyrir Breiðablik á 61. mínútu. Fylgjast má með leiknum í beinni textalýsingu og í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×