Hamas samtökin sendu frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem segir að engum gíslanna verði sleppt úr þessu, nema komið verði til móts við kröfur þeirra um að föngum í ísraelskum fangelsum verði sleppt. Ísraelsmenn segja að enn séu 137 í haldi Hamas en um sjöþúsund Palestínumenn eru í fangelsum í Ísrael.
Forsætisráðherra Katar, sem hefur leitt viðræður á milli hinna stríðandi aðila segir að áfram sé unnið að vopnahléi en að ástandið hafi þó versnað til muna síðustu daga sem dragi úr líkunum á því að hægt verði að semja á næstunni.
Kallað hefur verið til neyðarfundar hjá Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem ástandið á Gasa verði rætt en Bandaríkjamenn beittu neitunarvaldi sínu á föstudaginn þegar öryggisráðið tók fyrir ályktun um tafarlaust vopnahlé.
Allir hinir meðlimir ráðsins greiddu atkvæði með vopnahléi, að Bretum undanskildum, sem sátu hjá.