Eftir árásir Hamasliða á Ísrael hinn 7. október þar sem um 1.400 óbreyttir borgarar féllu og um 240 voru teknir í gíslingu, einbeitti Ísraelsher sér að norðurhluta Gazastrandarinnar, samnefnda borg og nágrenni hennar. Íbúum svæðisins var ráðlagt að flýja suður á bóginn.
Undanfarið hafa Ísraelsmenn hins vegar gert miklar loftárásir á mið- og suðurhluta Gaza og sent inn öflugan landher í þeim tilgangi að eyðileggja búðir og vopnageymslur Hamas og handsama leiðtoga þeirra. Síðast liðna nótt gerðu þeir loftárás á íbúðabyggð í bænum Deir al-Balah á mið-Gaza og Maghazi flóttamannabúðirnar. Að minnsta kosti 33 létust í þeim arásum, þar af 14 konur og fjögur börn.

„Það er gríðarleg eyðilegging. Hús nágranna okkar var sprengt. Flestir þeirra létust, meira en 30 manns. Þeir hýstu flóttafólk. Megi guð blessa sál þeirra. Enginn hérna hefur neitt með stríðið að gera. Við erum óbreyttir borgarar. Það er engin andspyrna á götunum. Það er ekkert. Við erum öll óbreyttir borgarar,“ sagði Momen Mabrouk.
Í morgun leitaði fólk að ástvinum sínum í rústum húsa í bænum Rafah, syðst á Gaza, eftir öflugar árásir Ísraelshers síðst liðna nótt. Að minnsta kosti tuttugu og þrír létust í þeim árásum, þeirra á meðal börn. Fólkið tilheyrði flest aðeins þremur fjölskyldum. Islam Harab missti þrjú barna sinna.

„Fjögur hús voru sprengd með þremur eldflaugum frá F16 herþotum. Í mínu húsi voru níu flóttamenn frá Gazaborg. Shujaiya og Zeitoun dóu ásamt tvíburadætrum mínum Maríu og Jude og little sonur minn Ammar dó líka,“ sagði Harab þar sem hann sat með lík sonar síns í fanginu með lík dætra sinna við fætur sér.
Yoav Gallant varnarmálaráðherra Ísraels segir herinn ekki ætla að vera um alla framtíð á Gaza en hann færi ekki fyrr en búið væri að uppræta Hamas. Fjöldi Hamasliða hefði gefist upp.

„Á meðal þeirra sem gefast upp eru hryðjuverkamenn sem tóku þátt í aðgerðunum 7. október.Þeir sem í morðæði drápu börn og nauðguðu konum eru nú í þeirri stöðu að hafa aðeins tvo kosti: að deyja eða gefast upp,“ sagði varnarmálaráðherrann.
Herinn væri við það að brjóta Hamas á bak aftur í norðurhlutanum í og við Gazaborg. Aðgerðum yrði haldið áfram í suðurhlutanum.