Körfubolti

Þriðja tap Íslandsmeistaranna í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lore Devos var stigahæst Þórsara í dag
Lore Devos var stigahæst Þórsara í dag Vísir/Hulda Margrét

Íslandsmeistarar Vals máttu þola sex stiga tap er liðið heimsótti Þór Akureyri í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Lokatölur 77-71, og meistararnir hafa nú tapað þremur leikjum í röð.

Valskonur höfðu yfirhöndina framan af leik og leiddu með sex stigum að loknum fyrsta leikhluta. Liðið hélt áfram að auka forskot sitt í öðrum leikhluta og hafði tólf stiga forystu þegar flautað var til hálfleiks, staðan 26-38 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Valskonur virtust svo vera að fara langleiðina með að klára leikinn í þriðja leikhluta þegar liðið náði 18 stiga forskoti þegarleikhlutinn var um það bil hálfnaður, en þá fóru meistararnir að hiksta. Þórsarar snéru leiknum sér í vil og voru búnir að minnka muninn niður í tvö stig þegar komið var að lokaleikhlutanum, staðan 48-50.

Heimakonur reyndust svo sterkari á lokakaflanum og unnu að lokum frábæran sex stiga endurkomusigur, 77-71.

Lore Devos átti stóran þátt í sigri Þórs og skoraði 26 stig, ásamt því að taka ellefu fráköst og gefa eina stoðsendingu. Í liði Vals var Eydís Eva Þórisdóttir atkvæðamest með 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×