Handbolti

Norsku stelpurnar spila um verð­laun í sex­tánda sinn undir stjórn Þóris

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson heldur áfram að bæta við afreksskrá sína sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta.
Þórir Hergeirsson heldur áfram að bæta við afreksskrá sína sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta. Getty/Javier Borrego

Þórir Hergeirsson stýrði norska kvennalandsliðinu í handbolta inn í undanúrslit heimsmeistaramótsins í gærkvöldi en norsku stelpurnar unnu þá sjö marka sigur á Hollandi, 30-23, í átta liða úrslitunum.

Þetta er átjánda stórmót norska kvennalandsliðsins undir stjórn Selfyssingsins og sextánda stórmótið þar sem liðið leikur um verðlaun síðan hann tók við norsku stelpunum.

Einu mótin þar sem norsku stelpurnar hafa ekki spilað um verðlaun síðan Þórir varð aðalþjálfari var HM 2013 þar sem liðið tapaði í átta liða úrslitum og endaði í fimmta sæti og svo EM 2018 þar sem liðið endaði í fimmta sæti.

Norska liðið hefur alls unnið fjórtán verðlaun á stórmótum undir stjórn Þóris og aðeins einu sinni hefur liðið farið heim án verðlauna eftir að hafa komist í undanúrslitin. Það var á HM 2019 þegar liðið tapaði á móti Rússum í leiknum um bronsið.

Þetta er sjöunda heimsmeistaramótið sem þær norsku spila um verðlaun síðan Þórir stýrði þeim fyrst sem aðalþjálfari á HM í Kína árið 2009. Uppskeran til þessa eru þrír heimsmeistaratitlar, eitt silfur og eitt brons.

  • Uppskeran á stórmótum Þórirs Hergeirssonar sem aðalþjálfara:
  • Gullverðlaun - 9 stórmót
  • Silfurverðlaun- 3 stórmót
  • Bronsverðlaun - 2 stórmót
  • Spila um verðlaun - 16 stórmót
  • Spila ekki um verðlaun - 2 stórmót
  • Vinna verðlaun - 14 stórmót
  • Vinna ekki verðlaun - 3 stórmót



Fleiri fréttir

Sjá meira


×