Eftir langþráða keppni kvennalandsliðs Íslands á HM í handbolta í þessum mánuði bíða Íslendingar nú spenntir eftir EM karla í janúar, og er búist við yfir 4.000 Íslendingum í München. Vonir standa til að allir sem vilja verði þá komnir í landsliðstreyju í sinni stærð.
Ljóst er, til að mynda af stuðningsmannasíðu á Facebook, að fjöldi fólks hefur fengið landsliðstreyju í rangri stærð eftir að hafa pantað í gegnum Boozt, sem í fyrsta sinn sér um sölu á treyjunum.
Þannig pantaði kona til dæmis þrjár karlatreyjur í „small“ og tvær kvennatreyjur í „small“ en fékk karlatreyjurnar í XL og kvennatreyjurnar í L, eða sem sagt fimm treyjur sem ekki pössuðu. Mýmörg dæmi virðast vera um sams konar rugling.

Kjartan Vídó Ólafsson, markaðsstjóri Handknattleikssambands Íslands, var vel meðvitaður um vandamálið þegar Vísir heyrði í honum í gær. Vika er síðan að HSÍ greindi frá því að netverslun sambandsins hefði verið færð alfarið yfir til Boozt.
Treyjurnar rangt flokkaðar en ekki lengur
„Ég hafði samband við Boozt um leið og þetta kom í ljós. Sökin liggur, eins og ég skildi þetta, í merkingum frá Kempa [sem framleiðir treyjurnar]. Að „spekkarnir“ sem skannaðir voru inn á lagerinn hafi verið vitlausir, og þannig hafi til dæmis XL verið flokkað sem Small. Þess vegna var þetta allt afgreitt vitlaust,“ segir Kjartan. Nú sé hins vegar óhætt að panta landsliðstreyjuna.

„Ég gerði Boozt viðvart strax og þau fóru í að leiðrétta þetta. Ég hef fengið þau skilaboð að núna ætti allt að vera orðið öruggt. Okkur þykir þetta auðvitað leitt. Boozt ætlaði að hafa samband við fólk og reyna að leiðrétta þetta,“ segir Kjartan.
Í Facebook-hópnum „EM Stuðningsmannahópur fyrir 2024“ má sjá að margir hafa einfaldlega farið þá leið að finna einhvern með rétta stærð, til að skiptast á treyjum, enda ekki víst að hægt sé að fá nýja treyju í tæka tíð í jólapakkann.
„Það eru margir að skipta bara innbyrðis. Það er bara íslenska leiðin. En núna á allt að vera komið í réttan farveg,“ segir Kjartan.