Innlent

Lög­regla leitar byssumannanna og annarra sem gætu tengst á­rásinni

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. Vísir/Arnar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar nú tveggja manna sem réðust inn í íbúð í Hafnarfirði og hleyptu af skotum á aðfangadagskvöld. Þá leitar lögregla að öðrum sem gætu tengst málinu. 

Í samtali við Vísi segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði að lögregla hafi handtekið einn í gær sem grunaður var um aðild að málinu. Svo reyndist ekki og viðkomandi var sleppt.

Hann segir að mannanna tveggja sé nú leitað auk annarra sem gætu tengst málinu. 

„Við erum að vinna eftir þeim upplýsingum sem við öfluðum okkur í gær og í fyrrinótt til þess að reyna að hafa upp á þeim sem þarna eiga hluta að máli eða eru grunaðir um þennan verknað,“ segir Grímur.

Aðspurður hvort árásin kunni að tengjast öðrum skot- eða líkamsárásum sem gerðar hafa verið upp á síðkastið segir Grímur að á þessu stigi rannsóknar sé allt undir varðandi hverjum málið gæti tengst og hverjar ástæður slíks verknaðar geti verið. 

Í fréttatilkynningu frá lögreglu sem birt var í gær segir að heimilisfólk hafi verið á staðnum en enginn hafi slasast. Þá segir að lögregla hafi vopnast og verið með mikinn viðbúnað. Rannsókn málsins sé í fullum gangi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×